Þ að er mikið rætt um það um þessar mundir að niðurskurður í ríkisrekstrinum verði sársaukafullur. En ríkisútgjöldin hafa aukist um 160 milljarða að raunvirði frá árinu 2003. Voru margir sárir árið 2003 vegna þess að ekki hafði verið efnt til þessara auknu gjalda?
Það gleymist líka undantekningarlítið að þegar sársaukafullur sparnaður næst hjá ríki eða sveitarfélögum minnkar sársauki skattgreiðenda að sama skapi.
Önnur veruleikafirringin í þessum efnum er talið um að ekki megi snerta við heilbrigðis-, félags- og menntamálum. Svona eins og þar geti ekki leynst útgjöld sem vart standist skoðun í venjulegu árferði, hvað þá þegar hagur manna hefur versnað mjög snarlega líkt og nú.
Þótt nær tuttugu þúsund manns gangi um atvinnulausir og halli á ríkissjóði muni nema tugum prósenta á árinu er enn verið að senda fólki í fullri vinnu og með ágætar tekjur barnabætur. Fólk með góðar tekjur fær sendar barnabætur upp á tugi og hundruð þúsunda á ári. Fjölskyldu- og barnabætur eru um 12 þúsund milljónir á þessu ári. Þær hljóta að koma til endurskoðunar.
Hið einstæða íslenska fæðingarorlof losar ríkissjóð við 11 þúsund milljónir króna á þessu ári. Hluta af kostnaði við fæðingarorlofið var velt yfir á atvinnuleysistryggingasjóð þegar lögum um fæðingarorlof var breytt árið 2000 en þá töldu menn að atvinnuleysi væri bara eitthvað úrelt fyrirbæri í nýja hagkerfinu. Þá var ekkert þak á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og tekjuháir fengu milljónir króna á mánuði frá Tryggingastofnun ríkisins þegar lögin voru komin til fullra framkvæmda árið 2003. Það er gaman til þess að hugsa að bankastjórar og fleiri útrásarmenn hafa sjálfsagt fengið hæstu félagslegu bætur Íslandssögunnar og jafnvel þótt víðar væri leitað í sögum. Um þetta ráðslag var þverpólitískt samkomulag allra stjórnmálaflokka. Það naut stuðnings Péturs Blöndals jafnt sem Jóhönnu Sigurðardóttur. Nú er búið að setja þak á þessar bætur sem er þó rúmlega tvöfalt hærra en atvinnuleysisbætur. Væri nokkuð að því að færa þetta þak niður að atvinnuleysisbótum? Það getur vart verið mat nokkurs manns að hið opinbera eigi frekar að bæta mönnum það „tjón“ að eignast barn en að hafa ekki atvinnu.
Félagslega kerfið á síður en svo að vera undanþegið þeim sparnaði sem óhjákvæmilegur er í ríkisrekstrinum á næstu árum.