N okkur atriði kosningaúrslitanna hafa farið fyrir ofan garð og neðan.
Össur Skarphéðinsson lýsti því sem „áfalli fyrir lýðræðið“ þegar George W. Bush var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2000 því hann hefði ekki fengið meirihluta atkvæða þótt reglur um kjörmenn ríkjanna geri vissulega ráð fyrir að þetta geti gerst. Í þingkosningunum um síðustu helgi greiddu tæp 50% þeirra sem mættu á kjörstað Samfylkingu og vinstri grænum atkvæði sitt þótt stjórnin fengi 34 af 63 þingmönnum. Ríkisstjórn VG og Samfylkingar mun því áfram minnihlutastjórn að þessu leyti.
Flokkarnir sem voru við stjórn í október á síðasta ári, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, fengu hins vegar tæp 52% atkvæða þeirra sem mættu á kjörstað um síðustu helgi eða öruggan meirihluta hvernig sem á er litið og 36 þingmenn. Flokkarnir sem voru „á vaktinni“ í hruninu njóta þannig samanlagt meiri stuðnings en flokkarnir sem tóku við og eru nú að semja um framhald á stjórnarsamstarfi sínu. Þetta er nefnt af því að efnt var til kosninga til að sækja nýtt og betra umboð kjósenda.
Allir hrunráðherrar Samfylkingarinnar að Ingibjörgu Sólrúnu undanskilinni gáfu kost á sér í kosningunum. Ingibjörg hvarf af vettvangi af heilsufarsástæðum. Ráðherrarnir skipuðu allir nema einn efstu sæti framboðslista flokksins, Össur og Jóhanna Sigurðardóttir í Reykjavíkurkjördæmunum, bankamálaráðherrann í Suðurkjördæmi og Kristján Möller í Norðausturkjördæmi. Aðeins Þórunn Sveinbjarnardóttir leiddi ekki lista Samfylkingarinnar en það hafði hún hvort eð er ekki gert áður. Á hinn bóginn leiddi aðeins einn af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins úr hruninu lista flokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Nú er komið í ljós að nær tvöþúsund kjósendur Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu breyttu kjörseðlum sínum á þann veg að Ólöf Nordal er nú fyrsti þingmaður flokksins í kjördæminu í stað Guðlaugs.
Allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins úr ríkisstjórn Geirs H. Haarde eru því horfnir af vettvangi eða fallnir úr leiðtogasætum í kjördæmum sínum. Nokkrir hrunráðherrar Samfylkingarinnar sitja hins vegar sem fastast og von gæti verið á að fleiri snúi í ráðherrastólana þegar ný stjórn kemst á laggirnar. Þetta er nefnt því krafist var endurnýjunar.