106. tbl. 13. árg.
Þ egar iðnaðarmenn voru í gær að gera við skemmdar hurðir og skipta um brotnar rúður, eftir að lögregla þurfti að hreinsa hústökufólk úr húsi við Vatnsstíg, bar þar að garði fólk sem vildi verða hleypt inn. Þar voru komnir fulltrúar hústökumanna að sækja eigur þeirra sem orðið hefðu eftir í húsinu þegar hústökumenn voru handteknir. Fólkinu var leyft að fara inn og taka dótið. Það er skiljanlegt að fulltrúar hústökumanna hafi komið á staðinn og krafist eigna þeirra. Eignarrétturinn er þessu fólki heilagur.
- Barack Obama Bandaríkjaforseti hélt ræðu á dögunum og sagði það til marks um hversu hagkerfi ólíkra landa væru tengd og hefðu mikil áhrif hvert á annað, að það að menn á Flórída hefðu ekki getað borgað húsnæðislánin sín, hefði meðal annars komið fram í bankahruni á Íslandi. Hér á landi tala álitsgjafar, þingmenn vinstriflokkanna og fréttamenn þeirra, eins og Sjálfstæðisflokkurinn eða jafnvel einstakir forystumenn hans, hafi valdið bankahruni á Íslandi, sem fyrir tilviljun hafi orðið á sama tíma og bankar um allan heim hrundu. Sumir hafa skrifað sig máttlausa um það, að bara ef einhverjir aðrir hefðu keypt ríkisbankana fyrir áratug, eða í einhverjum öðrum hlutföllum, eða á einhverju öðru verði, þá væri nú annað uppi á teningnum sko. Sennilega dugar ekki einu sinni átrúnaðargoðið Barack Obama til að slá á þessa furðulegu sjálfsdáleiðslu.
- Smáatriði, og meira af forvitni en annað: Hefur einhver séð fréttamynd af ráðherrum minnihlutastjórnarinnar og ráðherrabifreið? Áður var algeng myndskreyting við fréttir að sjá Geir Haarde aka burt á forsætisráðherrabílnum, Björn Bjarnason stíga út úr bensanum, og svo framvegis. Hefur einhver séð fréttamynd af nýju ráðherrunum við glansandi ráðherrabíl? Ef ekki, er það þá tilviljun eða getur verið að á fréttastofunum séu menn svo einbeittir þessa dagana að ekkert megi gera til að slá á alþýðustjórnarímyndina?
- Menntamálaráðherra boðaði í gær skattahækkanir og lækkun launa opinberra starfsmanna. Þegar í stað fóru málpípur í að lofa hana fyrir hreinskilnina. Út af fyrir sig er ágætt að menn segi þá frá því fyrirfram að þeir hyggist hækka skatta og lækka laun, svo ekki gagnrýnir Vefþjóðviljinn hana fyrir það út af fyrir sig; en hvernig halda menn að menn hefðu látið ef sambærileg yfirlýsing hefði komið frá ráðherra annarra flokka? Ætli þess hefði verið krafist að því yrði þegar í stað svarað hverra laun skyldu lækka og hve mikið? Ætli BSRB hefði tekið málinu af rósemi? Ætli forystumenn annarra stéttarfélaga hefðu látið sér nægja að tala almennum orðum að tilkynningar um launalækkun væru svona frekar „óheppilegt innlegg í viðræður“, eða hvernig sem það var nú orðað í gær?
- Gaman hefur verið að fylgjast við viðbrögðum manna yfir ábendingu hæstaréttarlögmanns í gær, þess efnis að vegna opinberra yfirlýsinga heilagrar Evu Joly undanfarið, geti það valdið ónýti opinberra rannsókna ef hún hafi þar einhverju formlegu hlutverki að gegna. Joly-söfnuðurinn á Íslandi hefur tekið þessum orðum sem helgispjöllum sem ekki geti verið sett fram af neinum ástæðum nema illum hug. Sömu viðbrögð urðu fyrir fáum vikum þegar því var haldið fram að sama gilti um aðstoðarmann Joly, en sá maður var sagður hafa, á einhverri heimasíðu, haft uppi mjög stór orð um þá menn sem líklegir væru til að verða teknir til rannsóknar. Ekki hefur Vefþjóðviljinn lagt sig eftir því hvað þessi Joly eða aðstoðarmaður hennar eiga að hafa fullyrt og hefur litla skoðun á þeim. En gaman væri að heyra Joly-söfnuðinn útskýra þá kenningu sína að stóryrði þeirra tveggja séu sárasaklaus fyrir rannsóknir málanna eða störf þeirra, ef stóryrðin væru í gagnstæða átt við það sem fregnir herma að þau hafi sagt. Ef Joly hefði nú sagt að litlar sem engar líkur væru á að nokkuð hefði verið athugavert við framgöngu stærstu fyrirtækja og aðstoðarmaður hennar hefði haft uppi stór orð um alla þá sem gagnrýnt hefðu útrásarvíkingana, ætli menn væru þá eins sannfærðir um að stór orð og fyrirframgefnar skoðanir valdi ekki vanhæfi?