Miðvikudagur 15. apríl 2009

105. tbl. 13. árg.
Í ársbyrjun 2006 hófst fjársöfnun, sem fór fram með vitund og vilja mínum. Skrifstofa flokksins skipulagði átakið en leitað var til 30 fyrirtækja og fékkst samtals 36 milljóna króna stuðningur frá 15 þeirra. Hæsti styrkurinn nam 5 milljónum. Við byrjuðum á þessu mun fyrr en lög voru sett um hámarksstyrki til stjórnmálaflokka, en vissum hins vegar af þeim breytingum sem framundan voru. Ljóst var að erfitt yrði að fara með tugmilljóna skuldir inn í nýtt umhverfi og kosningaárið 2007 var framundan.
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

N ú etur hver upp eftir öðrum að lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda sem sett voru í desember 2006 hafi verið mikið þarfaþing.

En ef marka má fréttir af fjármálum flokkanna á árinu 2006 og árin þar á undan virðast einstakir styrkir ekki hafa verið nema um 1 – 2% af heildartekjum flokkanna áður en lögin komu til tals.

Hvað fæst eiginlega fyrir styrk sem vegur ekki þyngra? Mikið mega menn vera aumir ef nokkrar milljónir í flokkssjóð, sem veltir hundruðum milljóna, hafa áhrif á stefnu flokksins.

Það var ekki fyrr en lögin um fjármál flokkanna voru sett sem örfáir menn í Sjálfstæðisflokknum töpuðu áttum hvað þetta varðar og gengu ekki aðeins gegn efni laganna heldur einnig þeim hefðum sem starfað hafði verið eftir í flokknum um árabil. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir játar sömuleiðis af hreinskilni að Samfylkingin hafi nýtt sér vitneskju um að hömlur yrðu settar á fjáröflun flokkanna og hafið fjáröflun af kappi snemma árs 2006 einmitt vegna þess að lögin voru í bígerð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vitleysisgangur hefst fyrst af alvöru með boðum og bönnum.

Hrun íslensks efnahagslífs síðasta haust átti sér stað nær þremur árum eftir að stjórnmálaflokkunum varð ljóst að þeir fengju að teyga ómælt úr ríkisspenanum, þyrftu ekki frekar á framlögum fyrirtækja að halda og yrði raunar bannað að þiggja þau. Á hverju ári myndu mörg hundruð milljónir streyma í sjóði flokkanna úr ríkiskassanum. Það er því langsótt miðað við þær upplýsingar sem nú þegar liggja fyrir um fjármál flokkanna að tengja hrunið við styrki upp á örfáar milljónir frá einstökum fyrirtækja á árunum þar á undan.

H ópur manna lagði undir sig húseign annars manns á dögunum og neitaði að fara. Kallað var á lögreglu en hlegið var að fyrirmælum hennar. Hinir og þessir söfnuðust á staðinn til að hjálpa innbrotsmönnum. Öllu lauslegu, meira að segja matarleyfum, var kastað í lögregluna og fólkið náðist ekki út fyrr en sérsveitin hafði sagað sig að því með vélsög. Fréttamenn hafa mestan áhuga á því hvort lögreglan hafi notað piparúða eða á einhvern hátt „farið offari“.

Fyrir nokkrum mánuðum var lögleg ríkisstjórn landsins hrakin frá völdum með ofbeldi. Eldur var borinn að alþingishúsinu, grjót gekk yfir lögregluþjóna dag eftir dag og meira að segja mannlegur úrgangur í pokum. Þegar ríkisstjórnin hafði flúið, flýtti forseti Íslands, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, sér að mynda minnihlutastjórn vinstriflokkanna, án þess að láta einu sinni reyna á myndun meirihlutastjórnar, eins og allar stjórnskipunarvenjur bjóða. Vinstrigrænir létu sér árásir á þing og lögreglu stórvel líka, og þingmenn þeirra stóðu á kantinum og hvöttu menn áfram, eða voru í símanum innan þinghúss og leiðbeindu árásarmönnum.

Vinstrimenn boða nú mikla aðför að eignaréttinum. Skattar skulu hækkaðir, reglum verður breytt afturvirkt, sjávarútvegsfyrirtæki, grunnstoð atvinnulífsins, skal gerð upptæk í áföngum og þannig mætti áfram telja. Reynt er að nema stjórnarskrána úr gildi og semja nýja utan alþingis. Og hvernig bregst borgaralega sinnað fólk við? Jú, fæstir láta í sér heyra, margir hreyta þó út úr sér að þeir ætli sko ekki að kjósa að þessu sinni, þeir séu búnir að fá nóg af hálfvitagangi.

Jú, auðvitað hefur borgaralegum stjórnmálamönnum orðið ýmislegt á undanfarið, hvort sem er með úrræðaleysi eða þá heimskulegum gjörðum, sem ekki þarf að útlista nánar. Sjálfsagt er að kjósendur sýni hug sinn til þeirrar frammistöðu, hvort sem er með útstrikunum í þingkosningum eða þá með því að hafna slíkum frambjóðendum í næstu prófkjörum. En að ætla sér að sitja heima eða skila auðu þegar yfir vofir ofstækisfyllsta vinstristjórn sögunnar, það er meiri píslarvættislöngun en Vefþjóðviljinn fær skilið.