M argræddir og meira en það, styrkir tveggja fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins voru óvenjulegir á fjölmargan hátt og dómgreindarleysið, að leita eftir þeim og taka við þeim, sömuleiðis. En að því sögðu, þá er hamagangur fréttamanna svokallaðra síðustu viku vegna þessa, fyrir löngu kominn á það stig að það sama má segja um hann þegar hann er borinn saman við afgreiðslu þeirra á ýmsum öðrum málum.
Ekkert er athugavert við að sagt hafi verið frá styrkjunum. Óskýr, reikandi og ósannfærandi svör Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um hans þátt í málinu, kölluðu jafnframt á athygli og frekari spurningar. Það var líka rétt að vekja athygli áhorfenda og lesenda á því að styrkjunum var safnað á síðustu dögum þess tíma sem það var leyfilegt og slík fjáröflun tíðkaðist, skömmu eftir að sömu aðilar tóku þátt í að banna slíka söfnun umfram 300 þúsund krónur. Eftir að lögin voru sett, en áður en þau tóku gildi, skömmtuðu stjórnmálaflokkarnir sér svo aukinn ríkisstyrk á fjárlögum á þeirri forsendu að nú væri ekki lengur hægt að leita til fyrirtækja eftir stuðningi sem fyrr. Það var sjálfsagt að benda á þessar tímasetningar, svo hver og einn gæti gert upp við sig hvort vinnubrögðin hefðu verið eðlileg.
Þetta er það sem var eðlilegt. En dögum saman hefur fréttamönnum tekist að láta þetta mál taka meirihluta fréttatíma, þar sem sömu efnisatriðin hafa verið margendurtekin – rétt eins og þau séu jafn fréttnæm í fimmtánda sinn og þau voru í fyrsta sinn. Spurningar hafa verið bornar upp eins og menn séu staddir á stórglæpavettvangi, og löngun fréttamanna til að blanda Kjartani Gunnarssyni í málið hefur verið langt handan þess heilbrigða. Fyrrverandi formaður ákveður að þiggja þessa tvo styrki – að því er virðist í þeirri röngu trú að þeir hafi komið frá fleiri fyrirtækjum en raun bar vitni – og einn þingmanna flokksins hefur haft milligöngu í málinu, hversu mikil sem hún hefur verið. Og þessi efnisatriði hafa kallað á óteljandi myndir af Kjartani Gunnarssyni og spurningar, bornar fram í fullri alvöru, um það hvort hann eigi að hætta í miðstjórn.
Kjartan Gunnarsson var framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins árum saman. Þegar hann lætur af störfum fara örfáir menn gersamlega fram úr sjálfum sér, með þessum hætti. Og fréttamenn gæta þess að mynd sé af Kjartani í öllum fréttatímum og spurt um hann í flestum viðtölum. „Gæti ekki verið að hann hafi vitað af styrkjunum?“, spyrja þeir hvað eftir annað, rétt eins og það hefði einhverju skipt. Jafnvel þó Kjartan hefði fengið að vita af styrkjunum, sem Geir Haarde ákvað að taka við, hvað þá með það? Það er ekki eins og menn hafi verið að fela lík í Valhöll. Menn tóku löglega við styrkjum sem var heimskulegt að taka við, og það skömmu áður en óheimilt varð að veita slíka styrki.
Ein skýrustu dæmin um það að fréttamenn hafa margir hverjir lagt ofuráherslu á að málið „klárist“ aldrei, eru viðtölin við Gunnar Helga Kristinsson, sem stundum voru jafnvel fyrsta frétt. Þegar ekkert nýtt er að frétta af pólitísku deilumáli, sem fréttamenn vilja af einhverjum ástæðum halda lifandi, þá er oft beitt sama bragðinu. Haft er samband við einhvern prófessor í samfylkingarfræðum við Háskóla Íslands og tappað af honum gagnrýnislaust í fréttatíma. Næst þegar þessu bragði verður beitt, þá ættu hlustendur að hugsa með sér: Ef það er nú eitthvað nýtt af þessu máli að frétta í raun, ætli fyrsta frétt væri þá hvað einhverjum stjórnmálafræðingi í háskólanum finnst?
Og svo ekkert fari á milli mála, þá finnst Vefþjóðviljanum ekkert athugavert við að sagt hafi verið frá málinu og efnisatriðum þess. Sérstaklega var eðlilegt að fylgja því eftir ef fréttamenn töldu sig hafa góða og gilda ástæðu til að ætla að þingmaður svaraði ekki sannleikanum samkvæmt. En hvernig er það nú annars með fréttamenn og „aðhaldið“ sem þeir þykjast stundum sýna ráðamönnum? Hversu oft hefur Vefþjóðviljinn nú ekki bent á ýmislegt í staðhæfingum forystumanna ríkisstjórnarinnar sem hafa verið í klárri mótsögn við önnur orð þeirra eða staðreyndir? Hversu oft verða þeir ekki „tvísaga“ um jafnvel mikilvæg mál? Hvenær ætli það gerist að fréttamenn leggist í víking vegna slíkra tilvika, og láti þær víkingaferðir standa sjö daga af síðustu fimmtán fyrir alþingiskosningar?
Svo, jú fréttamenn máttu og áttu að segja frá styrkveitingunni og fara með gagnrýnum huga yfir svör helstu leikenda í málinu. En þeir eiga líka að gæta jafnræðis. Og eftir vikuherferð þeirra í styrkjamálinu verður enn fróðlegra en áður að heyra skýringar þeirra á samfelldri þögn þeirra um önnur mál.