Helgarsprokið 12. apríl 2009

102. tbl. 13. árg.

S tjórnmál eru merkileg mál. Þau eru í ákveðnum skilningi áhrifameiri mörgum öðrum málum.

Það mætti því ætla að stjórnmál snúist alla jafna um hugmyndir. Þar takist á ólíkar skoðanir manna og fundin sé „besta“ lausnin með heilbrigðri samkeppni hugsjóna. Því fer hins vegar fjarri. Stjórnmál snúast í raun gjarnan um aukaatriði mála, um fólkið sem í þeim vafstrar, hverju það fólk klæðist og hvort það getur haldið lagi, svo eitthvað sé nefnt. Um þetta snúast stjórnmálin í raun – og það á góðum degi.

„Þetta virðast ekki tímar fyrir hugsjónir, stóra drauma eða djarfar hugmyndir að raunverulegri endurreisn. Flestir virðast sammála um að menn eigi frekar að hlusta áfram á hjal úrtölumanna og talsmanna löngu dauðra hugmyndakerfa um afturhald, höft, niðurjöfnuð og forsjá.“

Þegar syrtir í álinn í þjóðfélaginu hallar enn undan fæti í stjórnmálaumræðunni. Stjórnmál færast þá enn fjær því sem þau „ættu“ að snúast um. Æ meiri tími umræðunnar leggst undir vænisýki og firringu. Þess er ef til vill ekki að vænta að á erfiðum tímum finni menn hjá sér dug til að eiga merkileg skoðanaskipti um þann vanda sem að steðjar og hvernig vinna skuli á honum bug, hversu bráður sem hann er.

Rökræða hefur enda alls ekki sömu frygð að færa og hatursfull og rakalaus rætni, til dæmis um þá sem standa í sviðsljósinu, einkum stjórnmálamenn. Það er enga þá svölun að finna í yfirvegaðri stjórnmálaumræðu sem finnst í því að drótta að æru manna í opinberu lífi og skapa múgæsingu um fánýtan áburð. Síst af öllu getur sams konar útrás fengist með því að bera klæði á vopn eða græða sár og fæst í þeirri Þórðargleði að takast að hleypa upp samkomum á borð við hið háa Alþingi.

Við slíkar aðstæður er því viðbúið að menn spyrji sig ekki hvernig hægt sé að koma stjórnmálaumræðunni í vitrænt horf, heldur að því hvort ekki væri rétt að losa sig alfarið við slíka umræðu. Stjórnmál þurfa varla endilega að snúast um málefni. Væri ekki nær lagi að stjórnmálaflokkar snúi sér einfaldlega frá því að vinna einhverjum tilteknum hugsjónum framgang og skoði frekar hvað sé helst fallið til vinsælda það misserið? Er ekki öruggast að koma sér fyrir á „miðju“ stjórnmálanna, þar sem tilteknar lífsskoðanir eða mótaðar hugmyndir um hvernig farsælast væri að skipa málum í samfélaginu eru ekkert að flækjast of mikið fyrir mönnum? Á miðjunni geta menn jú átakalítið tekið svona sitt lítið af hverju og moðað úr því það sem dægrinu lyndir það sinnið. Í miðjunni er líka bæði hlýtt og skjólsamt, því að þeir sem utar standa, hvort sem er í fararbroddi eða í afturenda, taka bitið af næðingnum. Má því ekki bara kasta þessu hugsjónaþrefi fyrir róða og kúra á „miðjunni“?

Við blasa dæmin um stjórnmálaflokka, með enga sjálfstæða sýn, sem hafa gert skoðanakannanir að leiðtoga lífs síns og það með glæsilegum árangri, í skoðanakönnunum að minnsta kosti.

Auðvitað virðist ekki annað vitrænt svar til en „jú“ við öllum þessum spurningum. Þetta virðast ekki tímar fyrir hugsjónir, stóra drauma eða djarfar hugmyndir að raunverulegri endurreisn. Flestir virðast sammála um að menn eigi frekar að hlusta áfram á hjal úrtölumanna og talsmanna löngu dauðra hugmyndakerfa um afturhald, höft, niðurjöfnuð og forsjá.