Föstudagur 10. apríl 2009

100. tbl. 13. árg.

S jálfstæðisflokkurinn hefur birt lista yfir þau fyrirtæki sem styrktu flokkinn um meira en 1 milljón króna árið 2006. Alls styrktu átta fyrirtæki flokkinn um fjárhæðir á bilinu 2 til 5 milljónir króna hvert. Svo eru þessi tvö frægu framlög í lok ársins upp á 25 og 30 milljónir þegar Guðlaugur Þór Þórðarson og Geir H. Haarde tóku að beita sér í fjármálum flokksins. Þau eru alveg sér á parti. Það er hins vegar rétt að halda því til haga að Guðlaugur segist aðeins hafa hvatt menn til að safna peningum fyrir flokkinn í desember 2006 og Geir segist hafa verið einn um að safna þeim. Haukur Leósson skrifaði svo undir ársreikninginn svo ekkert væri á reiki.

Ef að listinn, að frátöldum þessum tveimur framlögum, gefur sæmilega mynd af því hve háa styrki Sjálfstæðisflokkurinn var að fá frá einstökum fyrirtækjum á þessum árum vaknar sú spurning hvers vegna flokkurinn hafi ekki lagt fram upplýsingar um fjölda styrkja, heildarupphæð þeirra og fjárhæð hæstu styrkja á ári hverju. Slíkur listi hefði leitt í ljós að hæstu einstöku framlögin næmu vart nema um 2% af heildartekjum flokksins. Almennar upplýsingar um fjármál flokksins hefðu einnig leitt í ljós að flokkurinn býr að mjög öflugu styrktarmannakerfi einstaklinga sem greiða hver um sig smáar fjárhæðir í hverjum mánuði. Þessi litlu framlög munu skipta tugum milljóna króna á ári. Kerfi að þessu tagi er mikilvæg vörn gegn tilraunum til að hafa áhrif á stefnuna með fjárstuðningi. Upplýsingagjöfin hefði einnig minnkað líkurnar á því að slys yrðu ef menn með undarleg sjónarmið tækju við fjármálum flokksins.

En í stað þess að sýna reikninga að eigin frumkvæði fór flokkurinn þá leið undir leiðsögn vinstri flokkanna árið 2006 að ríkisvæða stjórnmálin með lögum um fjármál flokkanna, stórauka ríkisstyrki til flokkanna og takmarka frjáls framlög til stjórnmálastarfsemi. Flokkarnir eru nú sannkallaðar ríkisstofnanir. Að loknum þingkosningunum eftir tvær vikur munu fjórar ríkisstofnanir eiga fulltrúa á Alþingi, aðrir ekki.

Þessi leið ríkisvæðingar stjórnmálabaráttunnar hefur svo sem verið farin víða um lönd með þeim afleiðingum að til hliðar við flokkana spretta upp félög sem taka við styrkjum frá fyrirtækjum. Boð og bönn um þessi mál auka ekki gagnsæi heldur flækjuna og vitleysisganginn. Um það hafa nú fyrstu dæmin á Íslandi litið dagsins ljós.