E itt helsta sameiginlega stolt margra Íslendinga, hefur um aldirnar verið alþingi. Ekki endilega þeir alþingismenn sem setið hafa hverju sinni, eða nýjustu afrek þeirra, heldur alþingi sem slíkt. Það hefur verið tilkomumikið fyrir fámennt og lengi vel fátækt land að geta þó státað af elsta þjóðþingi veraldar, stofnuðu árið 930. Erlend ríki hafa iðulega vísað til þess í samskiptum við landið og þetta ævagamla þing hefur getað verið sameiginlegt stolt ólíkra kynslóða, hvernig sem til hefur tekist með hversdagsleg þingstörf. Eitt hefur þó skyggt á og orðið mönnum til töluverðrar skapraunar. Eftir áföllin í lok 18. aldar, eftir móðuharðindi og margra ára vesöld, tókst svo hrapallega til að þinghald lagðist af í upphafi 19. aldar. Var það ekki fyrr en 1843 sem hafist var handa um endurreisn þingsins og spillir þessi niðurlæging fyrir ánægjunni sem menn annars hafa af elsta þjóðþingi heims. Þó auðvitað verði menn að játa að aðstæður voru skelfilegar eftir móðuharðindin, þá hefði verið svo miklu skemmtilegra ef þingið hefði getað átt órofna sögu.
Nú hefur svo furðulega tekist til, að vegna tímabundinna fjárhagserfiðleika hyggjast menn gengisfella þetta sama alþingi að nýju og svipta það æðsta valdi á Íslandi, valdinu til að setja Íslendingum stjórnarskrá. Fyrri niðurlægingu alþingis geta menn skýrt með móðuharðindum, hungri og vesöld sem hafði lagt þriðja hvern Íslending að velli. Síðari tíma menn, sem munu horfa til síðari niðurlægingar alþingis og þurfa að útskýra hana fyrir erlendum gestum, sitja uppi með aðra skýringu: Jú sko, Framsóknarflokkurinn, sem þá var til, í nóvember 2008 fór hann á taugum yfir því að hafa engin baráttumál sem gætu komið fylginu yfir tíuprósent. Svo hann fól einum sinna manna að semja frumvarp sem gæti beint sjónum frá þinghúsinu, frá daglegum stjórnmálum og frá úrræðaleysi flokksins. Hann sagði Framsóknarmönnum að segja að vandi landsmanna væri stjórnarskránni að kenna, án þess þó að benda á neitt í stjórnarskránni sem hefði valdið vandanum. Svo samdi hann gersamlega óskiljanlegt frumvarp um nýtt alþingi og kallaði það stjórnlagaþing, og ætti það að setja nýja stjórnarskrá samkvæmt nánari reglum frá gamla þinginu, sem væri ómögulegt þing. Þegar svo Framsóknarflokkurinn komst í þá aðstöðu að ráða lífi vinstristjórnar, sem þá grasseruðu í heiminum, þá var elsta þjóðþing heims fyrsta fórnarlambið. Jú og svo höfðu einhverjir menn skrifað greinar á vefsíður um að stjórnarskráin væri ónýt og þingið væri ónýtt, og þess vegna þyrfti að búa til nýtt þing. Það þótti sumum þingmönnum líka mjög mikilvægt. Þess vegna kæru gestir, var alþingi Íslendinga aftur svipt æðsta valdi á Íslandi.
Menn geta haft ýmsar skoðanir á þjóðmálum. En tilræðið við elsta þing heims, er þeim öllum til skammar sem að því standa. Þeir sem berjast gegn því, munu hafa af því mikinn sóma þegar tímar líða fram.