L íkt og lesa má í Morgunblaðinu í dag hafa bæjaryfirvöld á Akureyri tilkynnt að þau ætli að biðja starfsmenn bæjarins að vinna framvegis einn dag í mánuði kauplaust. Svo illa sé bærinn nú staddur.
Já það hefði kannski komið sér betur að hafa ekki ákveðið að byggja með ríkinu „menningarhús“ og tónlistarskóla, sem alls kosta um 2,1 milljarð króna.
Það hefði kannski líka komið sér vel að hafa ekki samið við stjórnendur Þórs og KA um framkvæmdir fyrir hálfan milljarð á félagssvæði þeirra.
Og svo því sé haldið til haga, þá voru Þórsarar ekki ánægðir með upphaflegan samning og felldu hann á félagsfundi. Bæjaryfirvöld gerðu það eina rétta og sömdu upp á nýtt og bættu 26 milljónum króna við fyrri nánasarskap.
Það kæmi sér kannski vel, víða um land, ef sveitarfélögin hefðu ekki verið ótrúlega óábyrg í fjármálum undanfarin ár. Ef þau hefðu ekki eytt og eytt í hvers kyns gæluverkefni þrýstihópanna. En nú er komið að mögru árunum og þá er hvergi upp á neitt að hlaupa. En spekingar skrifa og blogga um að hér hafi „nýfrjálshyggjan“ ráðið ríkjum og loks „beðið skipbrot“.
Æ tli Sjálfstæðisflokkurinn kóróni niðurlægingu undanfarinna vikna og mánaða með því að hleypa stjórnarskrárbreytingum í gegnum þingið nú í vor? Ef hann gerir það, þá er hann öllum heillum horfinn. Nýr formaður verður að sýna að hann sé kominn til að berjast en ekki til að láta berja sig. Það eina sem hann hefur á þinginu er frumvarpið um hinar gersamlega óþörfu stjórnarskrárbreytingar. Hér verður Sjálfstæðisflokkurinn að sýna að hann geti ennþá eitthvað. Þessar breytingar beinlínis verður hann að stöðva.
R íkisútvarpið efndi til aprílgabbs í gær og tilkynnti hlustendum að sýslumaður hefði „vörslusvipt“ tvo nafngreinda menn ýmsum eigum sínum og yrðu þær seldar hæstbjóðanda á einhverjum stað sem var vísað á. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra tók þátt í leikþættinum og hvatti til þess að haldið yrði áfram á sömu braut og skartgripir, málverk og fleiri verðmæti tekin af mönnunum og þeim komið til lánardrottna viðskiptabankanna.
Nú er löng hefð fyrir aprílgöbbum og menn verða að hafa nokkurt svigrúm til óábyrgra fullyrðinga þennan dag ársins. En eitthvað hefði nú verið sagt ef einhverjir aðrir stjórnmálamenn hefðu tekið þátt í slíku gríni um nafngreinda menn, jafnvel þó þarna eigi í hlut viðskiptamenn sem talsverður hluti þjóðarinnar mun nú telja sig eiga óuppgerð mál við. En úr því að það var hinn faglegi Gylfi Magnússon, þá er þetta í fínu lagi eins og annað. Ekki er hann smekklaus stjórnmálamaður heldur sprenglærður dósent.