Á sama tíma fór nær allt bankakerfi veraldarinnar fram úr sjálfu sér. Það gerðist einkum af tveimur ástæðum. Vöxtum var haldið óeðlilega lágum alltof lengi af stærstu seðlabönkum heims og á sama tíma var sú stefna uppi að bankarnir ættu sjálfir að annast um eigið eftirlit og áhættumat í mun stærri stíl en áður. Sú stefnubreyting hefði getað gengið og gengið ágætlega upp ef því hefði fylgt að ríkisvaldið tæki ekki ábyrgð á bönkunum kynnu þeir ekki fótum sínum forráð. Ef fyrir hefði legið að bankarnir störfuðu á eigin áhættu myndi aðhald innistæðueigenda verða mikið og þeir myndu ekki líða viðskiptabönkum að þeim væri breytt eins og hendi væri veifað í áhættusama fjárfestingarbanka. |
– Davíð Oddsson í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær. |
R æða Davíðs Oddsonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær hefur að vonum vakið umtal. Skemmtilegustu og beittustu hlutar hennar hljóta auðvitað mesta athygli fjölmiðlanna. En fleira var áhugavert en það sem fjölmiðlarnir velta sér upp úr. Fáir hafa til að mynda staðnæmst við skýringar forsætisráðherrans og seðlabankastjórans fyrrverandi á bankahruninu um heim allan. Hann nefnir einkum tvær líkt og lesa má hér að ofan.
Annars vegar hin ríkisreknu peningamál sem viðgangast um heim allan. Þau eru byggð á þeirri firru að embættismenn geti ákveðið skynsamlegt verð á fjármagni eða vexti. Það hefur verið reynt að fela embættismönnum að ákveða verð á nær öllum sköpuðum hlutum, allt frá eplum til afláts. Það hefur ætíð endað með ósköpum. Hví skyldi niðurstaðan vera önnur þegar verðlagning peninga er sett í hendur ríkisins? Það er raunar vart hægt að hugsa sér óheppilegri varning en peninga til setja undir skömmtunar- og verðlagsvald ríkisins. Röng verðlagning peninga sendir röng skilaboð um allt hagkerfið. Hinir lágu vextir stærstu seðlabanka heimsins á undanförnum árum voru villuljós fyrir einstaklinga sem þurftu að gera upp á milli eyðslu og sparnaðar. Þeir gáfu fyrirtækjum falska ástæðu til að færa út kvíarnar.
Hins vegar nefndi Davíð að það gangi ekki að fyrirtækjum með ríkisábyrgð sé sleppt lausum. Að veita einkabönkum ríkisábyrgð hefur réttilega verið kallað að einkavæða gróðann en þjóðnýta tapið. Þótt bankar séu mikilvæg fyrirtæki réttlætir það ekki að þeim sé veitt ríkisábyrgð til að safna skuldum. Það hljóta allir að sjá að það hvetur þá ekki beinlínis til ábyrgðar í rekstri að aðrir sitji á endanum uppi með skuldir þeirra. Hitt má svo aftur deila um hvort fjármálafyrirtæki hafi í auknum mæli gengið sjálfala á undanförnum misserum. Það hefur ekkert sérstakt komið fram um að svo hafi verið. Þvert á móti hafa opinberar eftirlitsstofnanir aldrei verið stærri og reglurnar aldrei fleiri eins og Andríki sá sig knúið til að auglýsa í vetur eftir að hver hafði eftir öðrum að hér hefðu bara engar reglur verið.
Fleiri hafa gert ástæðum hinnar alþjóðlegu bankakreppu skil að undanförnu. Í nýjasta hefti Þjóðmála rekur til að mynda Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri hve ríkisafskipti af fjármálakerfinu eru gríðarmikil.
Alls staðar eru bankar í lófa ríkisvaldsins. Seðlabankar stýra því hve mikið bankar gíra sig upp með lántökum, hvetja til lántöku eða letja með vöxtum, bindiskyldu og öðrum tækjum. Á móti lofar ríkið að styðja við fjármálakerfið, þótt oft sé óskýrt hvernig sá stuðningur muni koma fram. – Og vegna þess að ríkið reynir að tryggja fjármálakerfið með óbeinum hætti, getur það gert kröfur. Lagabálkar um fjármálastarfsemi eru miklir, þ.m.t. á Íslandi. Eftirlit er svo í höndum fjármálaeftirlits í hverju landi og/eða seðlabanka.
Nútímabankakerfi felur þetta í sér: Gjaldmiðlar eru gefnir út af ríkisreknum seðlabönkum og samkeppni við þá er óheimil. Auk seðla og myntar gefa seðlabankarnir út peninga í formi innistæðna bankanna hjá sér. Gjaldmiðlarnir eru ekki ávísun á neitt annað og eru ekki tryggðir með gulli eða neinum öðrum vörum sem eru í takmörkuðu magni. Útgáfa meiri og meiri peninga er því ótakmörkuð. Bankar gefa í raun líka út peninga á formi innistæðna. Í skjóli seðlabanka, og raunar undir handleiðslu þeirra, gefa bankar þannig út mun meira fé en seðlabankar með þessum hætti. Algengt er að innistæður banka í seðlabanka séu minni en 10% af þeim innistæðum sem eru í bönkunum. Seðlabankar starfa sem „þrautavaralánveitendur“, sem þýðir að þeir eiga að bjarga bönkum sem lenda í vandræðum og geta notað til þess útgáfu nýrra peninga. Oft starfa ríki líka sem þrautavaralánveitendur, en það geta þau í skjóli þess að geta tekið lán frá seðlabönkum sínum í ótakmörkuðu magni. Þau hafa líka skattlagningarvald, sem er þó ekki jafn öflugt og seðlaprentunarvaldið. |
Gunnlaugur var einnig gestur í Silfri Egils nýlega þar sem hann fór yfir þessi mál og er full ástæða til að hvetja menn til að horfa á þáttinn sem finna má hér.