S kipt verður um forystu í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hans nú um helgina. Eðlilega líta menn um farinn veg á þessum tímamótum. Hvernig tókst til á þessum tæpu fjórum árum sem núverandi forysta hefur leitt flokkinn?
Sjálfsagt telja einhverjir litla ástæðu til að fjölyrða um árangurinn daginn sem Gallup sendir frá sér skoðanakönnun þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er þriðji stærsti flokkur landsins, eða öllu heldur sá næstminnsti. En eltingarleikur við skoðanakannanir er ef til vill eitt af þeim meinum sem kunna að hafa hrjáð flokkinn undanfarin ár svo það er engin ástæða til að láta þar við sitja.
Það sem mestu máli skiptir er hvaða árangri flokkurinn hefur náð í hugmyndabaráttunni. Hvaða stefnumál hans hafa orðið að veruleika?
Hér eru nokkur af þeim málum, stórum og smáum, sem flokkurinn hefur staðið að á síðustu árum:
- Stjórnmálaflokkarnir voru settir á fullt framfæri ríkisins í lok árs 2006.
- Nýjum flokkum var um leið gert illmögulegt að afla fjár með frjálsum framlögum.
- Lög frá árinu 2006 bönnuðu eigendum veitingahúsa að reykja eða leyfa reykingar í eigin húsum.
- Víneftirlitið sér til þess að menn standi ekki með bjórinn sinn og reyki undir beru lofti.
- Tekjuskattur einstaklinga var hækkaður úr áður lögfestum 34,72% í 35,72% í byrjun árs 2007.
- Ríkisútgjöld hafa aldrei aukist jafnmikið á tveimur árum og frá 2006 til 2008.
- Ríkisútgjöldin hækkuðu á þessum tveimur árum um 35% eða 120 þúsund milljónir króna.
- Tekjuskatturinn var hækkaður aftur um síðustu áramót, nú úr 35,72% í 37,20%.
- Nektardans var bannaður nema þar sem lögreglan leyfir hann sérstaklega.
- Gripið var til dýrustu „mótvægisaðgerða“ Íslandssögunar í minnsta atvinnuleysi sögunnar árið 2007.
- Gerðar voru sértækar lækkanir á virðisaukaskatti í stað almennra lækkana í ársbyrjun 2007.
- Þing- og borgarstjórnarflokkar Sjálfstæðisflokksins tóku þátt í pólitískum rétttrúnaði með femínistum gegn ráðstefnugestum á Hótel Sögu 2007.
- Lóðabrask var notað til að koma spilakössum úr verslunarkjarna í Reykjavík sem þó er vel afmarkaður frá íbúðabyggð.
- Hryðjuverkamönnum í Írak var send hvatning með heimköllun á framlagi Íslendinga í baráttunni gegn þeim.
- Byggðastofnun fékk 1.200 milljóna aukaframlag.
- Mörg hundruð milljónum var eytt í framboð til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
- Gjaldeyrishöft voru lögð á landsmenn haustið 2008.
- Stórfelld þjóðnýting banka og fyrirtækja hófst haustið 2008 og stendur enn yfir.
- Óskýr lagasetning um innistæðutryggingar á grundvelli tilskipunar ESB færðu skattgreiðendum ábyrgðina á ICESAVE og gætu gert ríkissjóð gjaldþrota.
- Ríkissjóður fór úr því að vera sagður skuldlaus í það að enginn treystir sér til að segja til um hve skuldirnar eru miklar.
Eins og þessi upptalning ber með sér hefur Sjálfstæðisflokkurinn látið undan síga á nær öllum hugmyndafræðilegum vígstöðvum sínum á síðustu árum. Að minnsta kosti ef hann telur sig hægriflokk með frjálslynd borgaraleg viðhorf. Það er sama hvort litið er á frelsi í einkalífi, frelsi til stjórnmálabaráttu eða efnahagslegt frelsi. Hvergi hefur flokkurinn komið við vörnum. Allir viðstaddir þingmenn flokksins greiddu til að mynda atkvæði með hækkun á tekjuskatti einstaklinga um síðustu áramót.
En þarf flokkurinn ekki að gera málamiðlanir til að vera í ríkisstjórn og borgarstjórn? Jú það er ekki raunhæft að gera ráð fyrir öðru en einhverjum málamiðlunum við mið- og vinstriflokkana sem sjálfstæðismenn vinna með. Það sem gerst hefur undanfarin ár er hins vegar rétt að kalla uppgjöf, ekki málamiðlun. Þessi uppgjöf varð endanleg þegar forysta Sjálfstæðisflokksins boðaði til sérstaks Evrópusambandslandsfundar í janúar að kröfu… formanns Samfylkingarinnar.
Þegar flokkur gefur allt eftir í samstarfi við aðra flokka gæti einhver freistast til þess að álykta að hann myndi njóta þess í samstarfinu og það yrði að minnsta kosti langt þótt það væri ekki farsælt. Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins hentu honum hins vegar bæði út úr ráðhúsi Reykjavíkur og stjórnarráðinu á undanförnum tveimur árum.
Ónýt barátta flokksins fyrir hugsjónum sínum í ríkisstjórn á undanförnum árum mun gera honum mjög erfitt fyrir í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili. En þar stefna vinstri flokkarnir leynt og ljóst að því að halda honum. Hvernig á flokkurinn að vera trúverðugur í gagnrýni sinni á skatthækkanir og eyðslugleði vinstri stjórnar þegar hann er sjálfur búinn að hækka skatta og útgjöld?