E ins og fjallað var um í gær, þá er vorhefti Þjóðmála komið út, sneisafullt af áhugaverðu efni. Meðal þess er þörf grein eftir Hauk Þór Hauksson um það sem hann nefnir útgjaldasprengingu hins opinbera á allra síðustu árum. Þær tölur sem hann sýnir, gætu hugsanlega orðið umhugsunarefni fyrir þá sem mestar áhyggjur hafa af uppgangi „nýfrjálshyggjunnar“ síðustu ár.
Haukur Þór hefur reiknað út að á síðustu sex árum hafi ríkisútgjöld vaxið að raunvirði um 41%. Ef horft er til árlegra útgjalda til einstakra málaflokka þá hafa þau aukist mjög verulega. Og ef borin eru saman fjárlög fyrir árið 2009 og fjárlög 2003, miðað við sama verðlag, þá er þróunin þessi:
· Útgjöld til fræðslumála hafa verið hækkuð um 10.302 milljónir króna, eða um 29%.
· Útgjöld til heilbrigðismála hafa verið hækkuð um 17.332 milljónir króna króna, eða um 17%.
· Útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála hafa verið hækkuð 39.553 milljónir króna, eða 45%.
· Útgjöld til samgöngumála hafa verið hækkuð um 8.588 milljónir króna, eða 28%.
· Útgjöld til húsnæðis-, skipulags- og hreinsunarmála hafa verið hækkuð um 1.716 milljónir króna, eða 47%.
· Útgjöld til almennrar opinberrar þjónustu hafa verið hækkuð um 7.883 milljónir króna, eða 37%.
Þannig mætti lengi telja. En auðvitað hafa ekki öll útgjöld ríkisins verið hækkuð á þessum tíma, og til að gæta sanngirni má sérstaklega nefna að útgjöld til landbúnaðar- og sjávarútvegsmála lækkuðu um 3.282 milljónir króna, eða um 16%. En þróunin var engu að síður eindregin í átt til stóraukinna útgjalda. Krafan í opinberri umræðu var líka mjög sterk í þá átt. Fjölmiðlar, álitsgjafar og stjórnarandstaða hömuðust af krafti og sífellt dundi á fólki tal um „fjársvelti“ og „niðurskurð“, og það á tímum sem opinber útgjöld voru aukin um 41% að raunvirði.
Og enginn fjölmiðlamaður gerir nokkra athugasemd þegar Steingrímur J. Sigfússon gengur inn í fjármálaráðuneytið og tilkynnir að nú hafi orðið þáttaskil: Tími nýfrjálshyggjunnar sé liðinn.