N ú eru alvörutímar í þjóðmálum. Efnahagsástandið tvísýnt, þúsundir hafa misst vinnuna, ríkisstjórnin komin með stjórnarskrána á heilann og skyndialþingiskosningar vofa yfir. Á slíkum alvörutímum verða alvörumenn gulls ígildi, en froðusnakkarar froðuígildi.
Allmargir nýir menn hafa nú boðið fram krafta sína í þágu þjóðarhags. Einn þeirra er Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi fréttamaður og núverandi forystumaður Samfylkingarinnar. Á framboðsfundi vegna prófkjörs flokksins á dögunum hélt hann ræðu og sýndi glöggt að hann er alvörumaður en enginn gasprari. Orðrétt sagði Sigmundur Ernir:
Mér hefur fundist þingmenn halda sig alltof mikið inni í sjálfu þinghúsinu og síður úti á meðal fólks og þess vegna hefur orðið rof á milli þings og þjóðar. Þingmenn finna ekki um hvað fólk er að hugsa, þeir sjá ekki hvað það er að gera. Ég heiti því ef ég næ öruggu þingsæti að ég mun verja meiri tíma hér í kjördæmi heldur en niðri á þingi. Þannig einvörðungu verða til góð lög vegna þess að lögin eiga að vera til fyrir þiggendur en ekki gefendur. Þau eiga að vera mannbætandi og manneskjuleg. Þannig búum við til alvöru samfélag. |
Það var ekki að undra að Samfylkingarmenn tækju þessum þungavigtarmanni opnum örmum og kysu hann strax í annað sætið á lista, og köstuðu út fyrir hann Einari Má Sigurðssyni, sem líklega er einna vinnusamastur þingmanna, þó fjölmiðlar segi sjaldan frá störfum hans í þinghúsinu.
F jármálaráðherra áttar sig á því að nú má engan tíma missa og taka verður fast á málum. Fjármálaráðuneyti alþýðunnar hefur því tilkynnt að aðalritarinn hafi ákveðið að „að skipa verkefnisstjórn um stefnumótun og undirbúning að kynjaðri hagstjórn (gender budgeting). Óskað verður tilnefninga frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Jafnréttisstofu og Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands í verkefnisstjórnina, en fulltrúi fjármálaráðuneytisins mun leiða verkefnið.“
A ðrir ráðherrar eru ekki síður með hugann við aðalatriðin og hafa því samþykkt að leggja fram á alþingi áríðandi neyðarfrumvarp sem bannar nektardans. Hvernig sem það fer saman við kröfuna um að „allt sé upp á borðum“ að banna einu starfsstéttina sem hefur ekkert að fela.
S vona eru áttatíudagar undir vinstristjórn. Gaman væri að fá fjögur ár af því sama.