F rambjóðendur við væntanlegar alþingiskosningar eru nú valdir hver af öðrum. Hinir gamalgrónu „fjórflokkar“, hafa almennt þann hátt á að gefa félagsmönnum sínum kost á því að velja frambjóðendur síns flokks, en nýju „lýðræðisframboðin“ munu víst ætla sér að tilkynna lista sína á blaðamannafundum.
Vinstriflokkarnir, Samfylking, framsókn og vinstrigrænir, gæta þess reyndar að láta kjósendur sína ekki ráða of miklu, því ef niðurstaðan verður „röng“ þá verður henni breytt eftir á, svo sem með „kynjakvótum“. Sömu flokkar tala reyndar milli kosninga eins og þeir vilji í raun „persónukjör“, aukin áhrif kjósenda og minna „flokksræði“, en þeir vita að fréttamenn munu aldrei benda á þann tvískinnung.
En tvískinnungur núverandi stjórnarherra ratar líka sjaldan í fréttatímana. Jóhanna Sigurðardóttir heldur mikla ræðu á viðskiptaþingi og telur Evrópusambandið það eina sem geti bjargað Íslandi frá örbirgð. Fréttamenn segja frá því glaðbeittir en enginn þeirra man eftir að fyrir alþingi er stjórnarskrárfrumvarp sömu Jóhönnu sem yrði raunar alls ekki til að greiða fyrir aðild að Evrópusambandinu, heldur þvert á móti. Hún segir þannig eitt á þingi en annað í ræðum úti í bæ, en hún getur auðvitað treyst á íslenska fréttamenn. Eða svo þetta sé stafað ofan í íslenska fréttamenn:
*Menn eru sammála um að útilokað sé að ganga í Evrópusambandið að óbreyttri stjórnarskrá.
* Jóhanna telur aðild að Evrópusambandinu lífsnauðsynlega.
* Jóhanna leggur fram frumvarp til breytinga á stjórnarskrá.
* Í frumvarpinu er ekkert gert til að opna fyrir aðild að Evrópusambandinu.
* Í frumvarpinu eru hins vegar kveðið á um að náttúruauðlindir skuli vera í „þjóðareign“ en ríkið fara með „forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt“, hvernig sem það gengi nú upp með Evrópusambandsaðild.
* Ekkert þetta minnast íslenskir fréttamenn á. Þeir hafa áhuga á stóru atriðunum tveimur: Hversu margar mínútur sjálfstæðismenn tali, um þetta framfaramál. Hversu margar konur séu í stjórnarskrárnefndinni.
Það væri raunar forvitnilegt að vita hvert fylgi Samfylkingarinnar væri ef fréttamenn veittu þeim flokki það aðhald sem forystuflokkur í ríkisstjórn á skilið – og allir stjórnmálaflokkar eiga auðvitað skilið. Ef Jóhanna Sigurðardóttir og aðrir forystumenn ríkisstjórnarinnar yrðu einhvern tíma krafin raunverulegra svara um raunveruleg mál. En það er víst lítil von til slíks núna.