S agt var frá því í vikunni að Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, hefði fyrir fáum árum haldið ræðu og mært íslensku útrásina og helstu menn hennar. Þetta þótti honum ekki til sérstaks álitsauka nú. En hvenær ætli íslenskir fréttamenn segi frá því, að maður nokkur, sem vikum saman hefur talað um það hve stækkun bankanna hefði verið slæm og útrásin nær byggð á sandi, hafi sjálfur sérstaklega staðið fyrir því að Kaupþing fékk „útflutningsverðlaun forseta Íslands“ fyrir öfluga útrás og hraða stækkun? En auðvitað má ekki falla á helgimyndina af Gylfa Magnússyni, eftir að hann hafði mánuðum saman verið daglegur gestur í fréttatímum vegna speki sinnar. Í viðtölum sem færðu honum ráðherrastól þegar yfirborðsflokkar urðu að ríkisstjórnarflokknum.
„Fyrirtækið fer fremst í öflugri útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og hefur vakið athygli fyrir framsækinn og arðbæran rekstur. Djörfung og dugur einkenna fyrirtækið, starfsmenn þess og stjórnendur. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið mjög ör undanfarin ár og hefur það gegnt lykilhlutverki í fjárfestinga- og viðskiptabankastarfssemi hér á landi. Síðustu ár hefur bankinn stóraukið starfsemi sína á erlendri grundu með stofnun dótturfélaga og kaupum á fjármálafyrirtækjum“, kom fram hjá dómnefnd Gylfa Magnússonar og félaga þegar hún verðlaunaði Kaupþing fyrir „mjög öran vöxt og að „fara fremst í öflugri útrás“.
En frásagnir af þessum skýru skilaboðum Gylfa og félaga til íslenskra fyrirtækja, bjóðast ekki í íslenskum fréttatímum. Þar sitja menn bara og endursegja með létti að ríkisstjórnin sé að fara skapa þúsundir starfa.