59. tbl. 13. árg.
H vernig tækju menn því ef formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti að hann hefði persónulega ákveðið að einn af þingmönnum flokksins yrði forsætisráðherraefni hans? Ætli því yrði tekið af sama samsinnandi gagnrýnisleysinu eins og fréttamenn gerðu í dag og fyrir tveimur árum, þegar formaður Samfylkingarinnar tilkynnti um slíkt val, framhjá öllum stofnunum flokksins?
- Furðulegt, en þó dæmigert fyrir íslenska þjóðfélagsumræðu þessar vikurnar, er hvernig menn hafa brugðist við augljósum ábendingum þess eðlis að ekki fengi staðist að setja erlendan ríkisborgara í íslenskt embætti. Vörnin er ekki hvað síst komin í það núna að maðurinn sé svo snjall að menn eigi ekkert að vera að hugsa um einhver smáatriði. Nú þykja það bara „lagaklækir“ og „þref“ að minnast á stjórnarskrána. Er það í takt við margt annað, en algengt er orðið að menn haldi bara fram hvaða fjarstæðu sem er, og telji lög og reglur alger aukaatriði.
- Ætli það þættu bara „lagaklækir“ ef spurt væri hvort maður, sem ætti að ráða sem bílstjóra, hefði bílpróf? Stjórnarskráin bannar að maður, sem ekki er íslenskur ríkisborgari sé skipaður í íslenskt embætti, og fram hjá því verður ekki komist með þvættingi eins og þeim sem fréttamenn virðast ætla að láta bjóða sér.
- Og svo endurtekið sé það sem sagt var hér í gær; ef stjórnarskráin bannar að maður verði skipaður í embætti, þá er ekki heimilt að skipa hann í það. Stjórnarskrárbannið við erlendum ríkisborgara í íslenskum embættum, er til að tryggja það að ákvarðanir um íslensk málefni á Íslandi séu teknar af Íslendingum en ekki útlendingum, hvað sem mönnum þykir um það sjónarmið. Það er ekki heimilt að setja útlendan mann til að gegna því starfi sem bannað er að skipa hann til.
- Þegar „seðlabankastjórinn“ var spurður á því á blaðamannafundi hvenær hann hefði verið beðinn um að taka embættið að sér, þá sagðist hann „ekki muna það“ – og fréttamenn spurðu einskis frekar. En það er þá rétt að brjóta þetta aðeins upp til skilnings fyrir íslenska fréttamenn: Annað hvort er svarið, sem þessi Norðmaður taldi fullgott ofan í Íslendinga, sannleikur eða lygi. Ríkisstjórnin er nýtekin við. Varla getur verið lengra síðan talað var við manninn. Kannski er það svo algengt í lífi þessa manns, að honum sé boðið að gerast seðlabankastjóri í öðrum löndum, að þau tilvik renni öll saman. En þetta er nú sagður svo töluglöggur maður að meira að segja stjórnarskrá lýðveldisins setji hljóða þegar hann er annars vegar, svo ekki er það vel sennilegt. Og kemur þá margt annað til greina en að maðurinn hafi bara ákveðið að ljúga þessu á blaðamannafundinum? Og ímyndi menn sér nú fréttamenn, álitsgjafa, stjórnmálamenn, bloggara eða aðra menn, fá svona svar frá einhverjum öðrum seðlabankastjórum, og láta gott heita! Ætli slíkt hefði nokkurn tíma gerst? En nú má ekkert segja, nú er sko kominn Útlendingur, sem er mikill heiður fyrir þá skrælingja sem kalla sig Íslendinga og flestir álitsgjafar vita að eru vitlausir, spilltir og lesa ekki Lesbókina. Þeir eiga því að hafa sig hæga og gefa sérfræðingnum frið til að vinna.
- Upplýst hefur verið að Norðmaður þessi fannst mjög auðveldlega. Steingrímur J. Sigfússon bað einfaldlega vinkonu sína, leiðtoga norska vinstriflokksins, að koma með nafn. Enginn segir neitt við þessu, frekar en öðru. Hvernig hefðu menn látið ef einhverjir aðrir ráðherrar hefðu valið Íslendingum embættismann með þessum hætti? Hefðu bara hringt í leiðtoga breska Íhaldsflokksins, bandaríska repúblikanaflokksins eða einhverja aðra sem þeir þekktu, og beðið þá um að senda sér „einn traustan“? Ætli þá hefðu álitsgjafarnir þagnað jafnskjótt og nú?