S teingrímur J. Sigfússon var í kastljósi í gær og auðvitað var talinu beint að seðlabankastjórum. Steingrímur hafði þau rök fyrir brottrekstri þeirra að allir aðrir væru farnir; forstjóri fjármálaeftirlitsins og ríkisstjórnin.
Nú eru það auðvitað ekki rök fyrir brottrekstri manna úr einni stofnun að maður úr annarri hafi samið um starfslok. En það er fleira og alvarlegra við kenningu Steingríms J. Sigfússonar að athuga. Áður sátu Samfylking og Sjálfstæðisflokkur í ríkisstjórn. Annar þessara flokka fór úr ríkisstjórn, en hinn alls ekki. Þar hafa ráðherrar meira að segja verið hækkaðir í tign. Þegar efnahagskreppan reið yfir, þá var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í veikindaleyfi en Össur Skarphéðinsson var oddviti annars stjórnarflokksins í hennar stað. Þegar ríkisstjórnin ákvað að bjóða hluthöfum Glitnis að ríkið keypti sig inn í bankann þá fór Össur fyrir Samfylkingunni. Það gerði hann líka þegar neyðarlög voru ákveðin, þegar samið var við alþjóða gjaldeyrissjóðinn og stefna mörkuð gagnvart ICESAVE-reikningunum. Þegar flestar ákvarðanir ríkisstjórnar voru teknar, var Össur oddviti annars stjórnarflokksins, Össur hefur síðan verið hækkaður í tign og er nú einnig utanríkisráðherra ofan á iðnaðarráðuneytið. Össur sat einnig í þeirri ríkisstjórn sem ítrekað fékk viðvaranir seðlabankastjóranna um það sem vofði yfir bankakerfinu ef ekkert yrði að gert, en ríkisstjórnin ákvað að gera ekki neitt. Þar sat einnig Jóhanna Sigurðardóttir. Þau hafa bæði verið hækkuð allverulega í tign fyrir glæsta frammistöðu, fyrst og fremst fyrir tilverknað Steingríms J. Sigfússonar og annars manns sem óþarft er að nefna.
Og enginn þarf að efast um að Jóhanna hafi verið fullkomlega sátt við aðgerðaleysið. Alkunna er, að hún hefur sem ráðherra haft þann hátt á að æða út og skella hurðum ef ekki er farið eftir hennar sjónarmiðum og lætur jafnan hátt í sér heyra ef henni þykir ekki nægilega á sig hlustað. Engum getur dottið í hug að hún hefði setið þegjandi ef hún hefði talið meiri aðgerða þörf í fjármálakerfinu.
Núna er Jóhanna komin með stjórnarforystu, í verðlaunaskyni fyrir vel unnin störf. Hennar helsta úrræði nú, er að segja upp bankastjórunum sem vöruðu ríkisstjórnina margsinnis við. Og fréttamenn sjá ekkert athugavert, heldur þráspyrja hana eingöngu hversu lengi hún „geti beðið“.
J ú, var það ekki. Svonefnd fréttastofa ríkisútvarpsins hefur haldið ótrauð áfram starfsemi fyrir Hörð Torfason og enn bætist í frammistöðusafn íslenskra fjölmiðlamanna undanfarinna vikna. Í gær þótti fréttastofunni lítill hópur manna með potta og pönnur jafn stórfróðlegt fréttaefni og áður, og þrátt fyrir margar fréttir um daginn er heildarfjöldi gagnrýninna spurninga til „mótmælenda“ síðustu fjóra mánuði ennþá núll.
Á þriðjudaginn voru víða birtar fréttir af því að Bubbi Morthens athafnamaður myndi halda tónleika fyrir utan seðlabanka Íslands daginn eftir. Engu að síður mættu tveir til þrír tugir manna á staðinn þá, auk fréttastofu Ríkisútvarpsins sem samkvæmt venju sendir Þórdísi Arnljótsdóttur til að þjarma að „mótmælendum“. Grafalvarlegur las Páll Magnússon svo helstu fréttir kvöldsins og þar var að sjálfsögðu framarlega í flokki: „Bubbi Morthens hélt óvænta tónleika fyrir framan seðlabankann í morgun“. Síðan kom Þórdís, sýndi Bubba syngja og tappaði aðeins af Herði Torfasyni fyrir þann daginn, og þá var fín „frétt“ komin. Að lokum tók Þórdís fram að haldið yrði áfram að safnast saman þar til búið væri að flæma bankastjórana úr starfi, því ekki má gleyma auglýsingaþjónustunni sem „fréttastofan“ hefur rekið undanfarna mánuði.