Þriðjudagur 10. febrúar 2009

41. tbl. 13. árg.

H örður Torfason, maðurinn sem sakar bankastjóra seðlabankans um landráð, kallaði krabbamein Geirs Haarde pólitíska reykbombu og íslenskum fréttamönnum þykir frásagnarverður, hélt tölu fyrir utan seðlabankann í gær. Þegar hann skipaði sínum mönnum að hindra bankastjórana að komast í bankann kom í ljós að hann mundi ekki nafnið á öðrum þeirra. Hörður Torfason veit ekki hvað seðlabankastjórar heita. Hann veit hins vegar allt um störf þeirra í bankanum og að þau eru landráð. Hörður Torfason hefur hrópað á torgum í fjóra mánuði og haldið átján útifundi sem allir hafa verið auglýstir í fréttatímum fyrirfram og hafa allir þótt fréttnæmir eftir á. Gagnrýnar spurningar fréttamanna til hans á öllum þeim tíma eru samtals nákvæmlega jafn margar og kjósendur Gylfa Magnússonar.

  • Gaman hvað menn eru hrifnir af hagfræðingum þótt ekkert bendi til annars en að þeir séu jafn mismunandi og annað fólk. Það á jafnvel að binda það í lög að bankastjóri Seðlabanka Íslands sé með tiltekna prófgráðu í hagfræði. Heimskreppa hefur hreint ekki orðið til þess að draga úr trú manna á þeim, öðru nær. Greiningardeildir viðskiptabankanna voru fullar af hagfræðingum. Erlendir bankar sem hafa farið í þrot, hver á fætur öðrum, voru undir stjórn hagfræðinga, íslensku bankarnir líka, hagfræðingar mynda meirihluta í bankastjórn Seðlabanka Íslands og ekki eru víst allir ánægðir með hana, stjórnarformaður fjármálaeftirlitsins var hagfræðingur og ekki töldu allir þar mikla röggsemi. Hagfræðingar hafa ráðið allra manna mestu um hvernig efnahagslíf heimsins hefur farið undanfarin misseri. Og lausnin að mati sérfræðingatrúaðra? Jú, viti menn: Fleiri hagfræðinga. Ef hagfræðingur mætir og segir eitthvað í sjónvarpinu þá er það rétt. Ef hagfræðingur skrifar skýrslu, einkum ef hún er löng, þá er hún skyldulesning og grundvallargagn. Sama regla gildir um niðurstöður Samkeppnisstofnunar. Þær eru jafnan hundrað síður, nær enginn hefur lesið þær en allir telja að þær séu „ákaflega vel rökstuddar“.
     
  • Ef að stjórn Heimdallar sendi frá sér ályktun þá kæmist hún ekki í ljósvakamiðla, nema raunar ef ályktunin fæli í sér gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn eða einstaka forystumenn hans. En hvað ef stjórnin myndi ekki senda ályktunina í tölvupósti heldur mæta einhvers staðar utandyra og þar myndi formaðurinn hrópa hana og síðan myndu félagar hans lemja með sleifum í potta og trufla fólk í næstu húsum? Ætli fréttamenn myndu þá mæta óðir og uppvægir, senda allt út, ræða hæstánægðir við Heimdellingana og að sjálfsögðu án þess að spyrja einnar einustu gagnrýnu spurningar, og myndu ljúka stórfrétt sinni á því að auglýsa næstu samkomu.
     
  • Þannig hafa fjölmiðlamenn, einkum þeir á ríkissjónvarpinu, að minnsta kosti hagað sér undanfarið gagnvart því liði sem þeir kalla „mótmælendur“ og sem þeir elta á röndum með upptökuvélarnar. Í gær fékk fámennur hópur við seðlabankann þessa úrvalsþjónustu, og alveg vafalaust í þeirri von „frétta“-stofunnar að fleiri myndu mæta næst. Strax um morguninn var sent beint út frá hávaðamönnum, og þetta þótti ógurlega fréttnæmt allan daginn. Um kvöldið var sýnt þegar Þórdís Arnljótsdóttir, tók hina og þessa viðstadda tali og spurði ekki einnar einustu gagnrýnu spurningar, efaðist um ekkert, vefengdi ekkert, bara lét liðið rausa. „Af hverju er ekki maðurinn tekinn út í járnum“ sagði „Anna Lilja Pálsdóttir mótmælandi“ og Þórdís Arnljótsdóttir kinkaði skælbrosandi kolli og taldi greinilega ekki ástæðu til að gera athugasemd við þessa hógværu spurningu Önnu Lilju Pálsdóttur, sem ekki var rökstudd frekar en neitt annað hjá „mótmælendum“.
     
  • Enginn vafi er á að ef sami hópur mætir aftur í dag – sem hann gerir auðvitað úr því að hann getur gengið að fréttastofu ríkisútvarpsins vísri – þá mun það þykja jafn fréttnæmt og áður, og enginn „mótmælandi“ verður krafinn nokkurra raka fyrir sjónarmiðum sínum. Fréttir munu hefjast á „mótmælum“ svo lengi sem þau standa, textavarpið mun boða menn á forsíðunni og um kvöldið verður hefðbundin frétt.
     
  • En þetta liggur þá ljóst fyrir. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur með framgöngu sinni lýst því yfir, að ef einhver vill standa úti á götu og krefjast handtöku annarra, án nokkurra raka, þá verður brosandi hæstánægður fréttamaður sendur á staðinn, ruglið sent út sem frétt, og engrar spurningar spurt. Ef að menn koma saman og fylgja sjónarmiðum sínum eftir með hávaða, þá munu jákvæðir og ánægðir fréttamenn mæta – alltaf – og senda út án nokkurra gagnrýnna spurninga. Ef einhver vill boða aðra til slíkra aðgerða, þá mun ríkisútvarpið segja frá því í fréttatímum fyrirfram. Þar sem að „frétta“stofa ríkisútvarpsins er engin áróðursstöð þá mun hún gera öllum sjónarmiðum jafnt undir höfði. Það getur ekki verið að það séu bara þessir glamrarar sem fá samfelldan útsendingartíma í ríkissjónvarpinu. Að minnsta kosti er ljóst að núverandi fréttastjórar og Þórdís Arnljótsdóttir telja ekkert athugavert við fréttir gærkvöldsins og telja að þar hafi verið spurt alls sem máli skipti.
     
  • Hvenær ætla þessir svokölluðu „fréttamenn“ að átta sig á því að pólitísk skoðun verður ekki fréttnæm við það eitt að menn æpi hana utandyra? Að „mótmæli“ verði ekki fréttnæm við það að vera endurtekin. Hvaða frétt er það að Hörður og félagar séu jafn reiðir í dag og þeir voru í gær?