A llt frá því núverandi ríkisstjórn komst í valdastóla hefur mestur hennar tími og áhugi farið í persónulegar atlögur ráðherra að einstökum embættismönnum. Efnahagsaðgerðir, sem þó voru sagðar ástæður stjórnarslita og myndunar bráðabirgða-minnihlutastjórnar, hafa alfarið mætt afgangi, við hlið þessa áhugamáls nýju stjórnarherranna. Engar lögmætar ástæður hafa þó verið gefnar, hvorki innan né utan stjórnarráðsins.
En þetta er ekki nýlunda þegar vinstrimenn eru annars vegar, þó nú sé reynt að fela eðli aðfaranna með vísan í óvenjulegt ástand og „kröfur þjóðarinnar“. Vinstrimenn hefðu hagað sér nákvæmlega eins, þó efnahagsástandið væri annað. Össur Skarphéðinsson er maðurinn sem flestu ræður í ríkisstjórninni og sá þingmaður sem mest vann að undirbúningi hennar. Strax í upphafi stjórnmálaferils síns lýsti hann því yfir að hann myndi við valdatöku sína byrja á því að flæma embættismenn úr störfum sínum, hvort sem hann sendi þá í öskuna, að sópa götur eða bara ræki þá, eins og hann orðaði það, til að sýna í leiðinni hvaða störf í landinu honum þótti ómerkilegust. Það eina sem hefur breyst síðan þá, er að nú hefur hann knúið formann BSRB til að horfa aðgerðalausan á aðfarirnar.
Aðgerðir vinstristjórnarinnar nú eru nákvæmlega þær sömu og vinstrimenn hafa alltaf hugsað sér, og koma efnahagsástandinu, eða frammistöðu embættismanna í starfi, nákvæmlega ekkert við.
Engar lögmætar skýringar eru gefnar á ólöglegri aðför að löglega skipuðum embættismönnum. Meira að segja formlegir og óformlegir talsmenn stjórnarflokkanna, reyna ekki að klæða aðfarirnar í löglegan búning. Frá þeim kemur í hæsta lagi furðutal um að þessir embættismenn eigi bara að fara, að þeir hafi nú aldrei átt að fá að verða embættismenn, að þeir séu sjálfstæðismenn – sem Bolla Þór Bollasyni fyrrverandi ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu hlýtur að þykja sérstaklega skemmtilegt að heyra, ofan á annað – og eigi bara að halda kjafti. Hvergi orð til að rökstyðja það að aðgerðirnar séu löglegar, sem segir nú flest sem segja þarf. Enda virðist eiga að skáka miskunnarlaust í því skjóli að þingmenn Framsóknarflokksins hafi afsalað sér atkvæðisrétti sínum á þingi, og að íslenskir fréttamenn muni sem stundum áður láta sér alfarið sjást yfir aðalatriði mála.
Ríkisstjórnin er mynduð í skyndi, hefur minnihluta þingmanna á bak við sig og á að sitja í örfáar vikur. Framsóknarflokkurinn lofaði að verja hana vantrausti svo hún fengi ráðrúm til að grípa til efnahagsaðgerða sem ekki voru taldar þola bið. En þá fer öll hugsun ráðherranna nýju í persónulegar herferðir. Því miður situr nú við tímabundin völd ríkisstjórn heiftar og ofstopa, en ekki ríkisstjórn úrræða. Það er staðreynd sem gaspur í álitsgjöfum stjórnarherranna fær ekki breytt. Þaðan af síður orðljót blogg eða háreysti.
Það kemur engan veginn á óvart hvernig vinstristjórn fer af stað. Það kemur heldur ekki á óvart að fyrst í stað taki fréttamenn framgöngunni eins og sjálfsögðum hlut. Eina spurningin er, hvort stjórnarherrarnir nýju hafi reiknað Framsóknarflokkinn rétt út, og geti til lengdar gengið svona fram í skjóli hans.