F jölmiðlar voru á útopnu í gær. Ríkisútvarpið hélt áfram að auglýsa fundi og samkomur í fréttatímum sínum og hamraði á því um morgun og í hádegisfréttum að ætlast væri til þess að menn mættu með potta og pönnur og trufluðu alþingi er það kæmi saman. Eftir að háreysti var byrjuð sendi Ríkissjónvarpið stöðugt út og fréttamenn hömruðu á því að fólki færi nú að fjölga. Um kvöldið, þegar flestir voru farnir, voru stöðug innslög í kastljós til að minna á að það yrði líka safnast saman um kvöldið. Helgi Seljan dagskrárgerðarmaður sagði að hellt hefði verið málningu á hús þingsins, en bætti svo við „látum það nú liggja milli hluta“.
Stöð 2 var samt skemmtilegri. Þar greindi Telma Tómasson sallaróleg frá því að hávaði, sem hefði borist inn í þingsal frá liðinu lemdu gluggana, væri sko „hjartsláttur þjóðarinnar“. Þetta er heldur önnur túlkun en um áramótin þegar Stöð 2 sagði að „ótýndir glæpamenn“ hefðu framið skemmdarverk og hvatti lögregluna til að horfa ekki aðgerðalaus á slíkt. Þá var að vísu mun alvarlegra mál á ferð, en skemmdur hafði verið þjóðardýrgripur, glæsilegur kapall úr eigu sjálfrar Stöðvar 2. Nú var eingöngu verið að ráðast að alþingishúsinu og það í nafni lýðræðisins, svo stöðin fylgdist spennt með. Nú var aðeins verið að reyna að hindra löglega kjörið alþingi í að funda, svo þetta var bara sjálfsagt og eðlilegt. Áður hafði hins vegar verið spillt umræðuþætti í sjónvarpi, og þá þótti fréttamönnum skrílslætin komin yfir öll eðlileg mörk.
En hvað sem öðru líður, mikið er óviðkunnanlegur þessi árátta sumra að geta ekki látið sér nægja að tala fyrir eigin hönd heldur þurfa jafnan að bæta þjóðinni við. Hvað er að segja um málstað þess manns sem getur ekki einfaldlega talað fyrir sjálfs síns hönd, „mér finnst…“, heldur þarf að í röksemda stað að fullyrða eitthvað um vilja þjóðarinnar, „þjóðin krefst…“?