Föstudagur 16. janúar 2009

16. tbl. 13. árg.

Á næstu tveimur vikum munu tveir stjórnmálaflokkar efna til landsfunda og er fyrirsjáanlegt að umræðuefni þeirra verður hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru eftir allnokkur ár. Hlýtur þetta að vekja nokkra furðu því að alvarlegt efnahagsástand hér innan lands ætti undir öllum eðlilegum kringumstæðum að vera helsta viðfangsefni stjórnmálamanna þessa dagana, hvar í flokki sem þeir standa. En hvað sem því líður verður auðvitað athyglisvert fyrir áhugamenn um stjórnmál að sjá hvernig flokkarnir fara með þetta mál. Framsóknarmenn hafa nú sýnt á spil sín og munu að öllum líkindum ná saman um ályktun um að hefja aðildarviðræður við ESB, en setja jafnframt svo stíf skilyrði um sjávarútveg, landbúnað og auðlindamál, að augljóst er að ESB mun ekki samþykkja þau. Með þessu er komið til móts við báða meginhópana í flokknum, þá sem segjast vilja aðildarviðræður til að sýnast nútímalegir og þá sem ekki geta hugsað sér að Ísland verði aðili að sambandinu.

Þetta er með öðrum orðum dæmigerð framsóknarlausn; merkingarlaus í sjálfu sér en til þess fallin að halda öllum góðum. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur í raun ekki sýnt á spilin með sambærilegum hætti, enda hafa skilaboðin í Evrópumál úr þeirri átt verið afar misvísandi. Það verður athyglisvert hvort reynt verður að miðla málum milli andstæðra sjónarmiða innan flokksins með einhverri framsóknarlausn af þessu tagi eða hvort tekin verður skýr afstaða, byggð á vilja meirihluta flokksmanna. Ummæli sumra ráðherra og þingmanna flokksins gefa til kynna, að tilraunir verði gerðar með einhvers konar framsóknarlausnir. Þannig hafa sumir talað fyrir því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn, jafnvel þótt sjálfir séu þeir á móti aðild. Aðrir hafa talað um að best sé að fara strax í aðildarviðræður og leiða þær til lykta, jafnvel þótt þeir séu sjálfir á móti aðild. Svo eru þeir til sem vilja fara beint í aðildarviðræður til þess að sjá hvað komi út úr þeim, þótt þeir taki reyndar skýrt fram að þeir muni aldrei samþykkja aðildarsáttmála, sem feli í sér það framsal fullveldisréttar yfir auðlindum, sem grunnreglur ESB kveða á um. Þessir síðastnefndu eru í raun að leggja til sömu „alltíplativiðræður“ og framsóknarmenn virðast ætla að leggja til á sínum landsfundi.

Það verður talsverð prófraun fyrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins hvort þeir þora að koma fram með skýra stefnu í þessum málum, sem byggð er á þeirra eigin sannfæringu, eða hvort þeir ætla að leggja til einhverja málamyndalausn, að því er virðist eingöngu til að kaupa sér frið frá Samfylkingunni.