Fimmtudagur 15. janúar 2009

15. tbl. 13. árg.

B jörn Bjarnason er umdeildur stjórnmálamaður eins og menn vita. Stuðningsmenn hans og sanngjarnir andstæðingar eru hins vegar sammála um atorku hans og hreinskiptni. Björn er jafnan reiðubúinn að rökræða skoðanir sínar og gerir það oftar en flestir starfsbræður hans. Þó svokölluð Evrópumál séu ekki sérstaklega á verksviði hans sem dómsmálaráðherra hefur hann látið þau töluvert til sín taka, ekki síst eftir að hann varð formaður sameiginlegrar Evrópunefndar allra stjórnmálaflokka, sem starfaði frá árinu 2004 og lauk starfi sínu með 136 blaðsíðna skýrslu árið 2007. Má segja að í þeirri ýtarlegu skýrslu sé samankominn sá fróðleikur sem flestum myndi nægja til að gera upp hug sinn til Evrópumála, enda er yfirborðskennt tal um að „sækja um, til að sjá hvað er í boði“, ekki annað en ryk sem stundum er notað til að kasta í augu fólks.

Í vikunni kom út bók þar sem safnað hefur verið nýlegum skrifum Björns Bjarnasonar um Evrópumál. Eru þau víða tekin, birtur er bókarkafli sem hann skrifaði í afmælisrit Háskóla Íslands, greinar af heimasíðu hans, úr dagblöðum og tímaritinu Þjóðmálum svo þess helsta sé getið. Í bókinni má fræðast um skoðanir Björns á Evrópumálum og rök hans fyrir þeim, eins og þau hafa birst á undanförnum misserum, sem og svör hans við ýmsu sem haldið er fram í umræðunni. Í lokaniðurstöðu Evrópunefndar stjórnmálaflokkanna kemst Björn að þeirri niðurstöðu að Ísland eigi að standa utan Evrópusambandsins og hann rekur í bókinni að sú niðurstaða hans sé enn þá óbreytt. Hann segir einnig, að ef að menn vilji ganga í Evrópusambandið til þess að skipta um gjaldmiðil, þá sé það óþarfa fyrirhöfn, því lagalega sé hægt að skipta um gjaldmiðil án slíkrar inngöngu, ef menn það kysu. Sjálfur segist Björn vera „enginn málsvari evru-aðildar, hef aðeins bent á, að aðrar leiðir séu fyrir hendi en innganga í Evrópusambandið, ef evru-stefna yrði mörkuð.“

Bók Björns Bjarnasonar, Hvað er Íslandi fyrir bestu?, er gagnlegt innlegg í umræðuna og setur ýmis álitamál í samhengi fyrir lesanda, hvort sem hann er sammála höfundi í meginatriðum eða ekki. Hvað er Íslandi fyrir bestu? er kilja, 192 blaðsíður að stærð, og fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar 1990 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu eins og ætíð í bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 600 króna sendingargjald.