R íkissjónvarpið sýndi í gær hinstu predikun Sigurbjörns Einarssonar biskups, er hann flutti síðastliðið sumar.
Sigurbirni mæltist vel í predikun sinni, og varð tíðrætt um sjálfstætt Ísland og hætturnar sem felast í því að ganga erlendu valdi á hönd, jafnvel þó í stuttum upphafsskrefum væri. Predikunin var flutt á slóðum Snorra í Reykholti og verk hans urðu biskupi skiljanlega hugstæð, og tilefni vangaveltna um nýlegri mál.
Egilssaga snýst um það, að íslenskur kjarkur, íslensk árvekni, vitsmunir og skáldgáfa geti bjargað íslenskum mönnum undan ásælnu, erlendu valdi. Og þetta er líka áberandi atriði í Heimskringlu, sem við vitum að Snorri samdi. Þar er sú ræða, sem Einar Þveræingur flutti á Alþingi, þegar Ólafur kóngur Haraldsson seildist til ítaka hér á landi og hafði valdamikla höfðingja á sínu bandi um það. … Það gæti hugsast, að sú höfuðlausn Egils, sem bjargaði lífi hans, hafi verið skráð á skinn hér í Reykholti sem dulbúin bæn og von um það, að Ísland missti ekki höfuð sitt á höggstokki norsku krúnunnar. En það fór nú samt svo illa. Römm öfl og vond ollu því. Það kemur fyrir, að mennirnir blindast og krossfesta sína eigin gæfu, hjálp og blessun. Verst fer þeim ævinlega, þegar þeir blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér – ég er ekki viss nema einhverjir sperrtir hanar á tildurshaugum samtímans mættu taka þetta til sín. Og það er ekki hættulaust að seljast undir framandi íhlutanir og yfirráð. Hákon konungur reyndist Íslandi óheillavaldur. En verri en Hákon eru þau máttarvöld sum, sem menn eru svo aumlega flatir fyrir nú á dögum. Ég nefni aðeins það sjúka yfirlæti, sem þykist upp úr því vaxið að gera ráð fyrir neinu æðra sjálfu sér í alheimi, og þann gráðuga Mammon, sem virðir ekkert, enga helgidóma, engar hugsjónir, engin gildi. En Jesús Kristur er hinn sami. |
Þetta er viturlega mælt hjá sr. Sigurbirni. Íslendingar ættu að forðast að seljast undir íhlutanir ábyrgðarlausra manna og yfirráð, jafnvel þó valdamiklir höfðingjar hér á landi kunni að róa að því, af einhverjum ástæðum. Á öðrum tíma og stað sögðu menn að svipuðu tilefni: „No taxation without representation“. Og það er ekki gaman að sperrtum hönum, á tildursdögum samtímans, sem blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér.
Predikun Sigurbjörns var birt í heild í hausthefti tímaritsins Þjóðmála og fæst það hefti eins og önnur í Bóksölu Andríkis. Þar fæst einnig áskrift af tímaritinu.