Ó trúlegur fjöldi banka og annarra fjármálafyrirtækja á Vesturlöndum hefur komist í hann krappan að undanförnu. Víðast hlaupa skattgreiðendur nú undir bagga með fyrirtækjunum sem nýlega greiddu hæsta arðinn og launin, fjármálafyrirtækjunum. Þar sem fjármálastofnanir eru mjög stórar miðað við aðra efnahagsstarfsemi eins og í Bretlandi er mikil óvissa um framvinduna og getu skattgreiðenda til að halda fjármálakerfinu gangandi. Þar sem fjármálastofnanir voru gríðar stórar í samanburði við þjóðfélagið reyndust skattgreiðendur einfaldlega ekki nógu margir til að blása lífi í örmagna banka. Það er allt loft úr bólunni.
Hvernig stendur á þessu kerfishruni? Æði margir sem tjá sig um málið hér á landi virðast tengja hrunið við óhóf og spillingu meðal stjórnenda og helstu eigenda bankanna. Satt að segja er sú umræða ekki mjög gæfuleg á köflum. Uppistaðan er slúður og óstaðfestar aðdróttanir. Fjölmiðlarnir, sem sjálfir hafa sagt að þeir hafi sofið á verðinum í aðdraganda hrunsins, gera enga tilraun til að bæta ráð sitt og skýra hvaða undirstöður brustu í efnahagslífinu. Flestir eru þeir lagstir í eltingarleikinn við einkaþoturnar og snekkjurnar að ekki sé minnst á „einkabílana“ eins og eitt tímaritið sagði á forsíðu sinni á dögunum þegar það skorti æsileg orð yfir íburðinn hjá auðmönnum Íslands. Vafalítið fylgja einhverjar bækur í kjölfarið þar sem niðurstaðan verður sú að margt hafi farið úrskeiðið í gjaldþrota fyrirtækjum, niðurstaða sem markaðurinn hefur þegar skilað.
En hvað með aðrar ástæður?
Hinn 10. desember síðastliðinn skrifaði Sigríður Á. Andersen lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík grein í Morgunblaðið þar sem hún gerði tilraun til að bregða ljósi á þá þætti sem valdið geta svo kerfisbundnu hruni atvinnugreinar eins og því sem Vesturlandabúar horfa nú upp á. Hvar eru upptök verðbólunnar sem nú er að springa?
Sem von er velta menn því fyrir sér hvað valdi verðbólum af þessu tagi. Hvernig verða væntingar manna svo óraunhæfar? Hvernig verða svo kerfisbundin mistök í rekstri fyrirtækja og almennt ofmat á fasteignum og verðbréfum? Hvað veldur því að atvinnugrein, eins og íslenska fjármálakerfið, þurrkast nær út á einni nóttu? Hvernig í ósköpunum lenda fjármálafyrirtæki um allan hinn vestræna heim í vandræðum í sömu mund?
Í gæslu ríkisins Það er auðvitað hluti af frjálsu markaðskerfi að rekstur fyrirtækja gangi misjafnlega og hluti þeirra verði einfaldlega undir í samkeppninni. Markaðurinn er harður húsbóndi. Þeir sem taka rangar ákvarðanir í rekstri fyrirtækja gjalda þess með atvinnumissi og eignatapi. Stjórnendur og eigendur íslensku bankanna hafa tapað miklum fjármunum á greiðsluþroti þeirra. Aðrir starfsmenn hafa einnig tapað hlutafé og lífeyrissparnaði. Kaupréttarsamningar eru að engu orðnir. Fjármálamarkaðir heimsins eru hins vegar aðeins frjálsir að vissu marki. Seðlabankar ríkisins stýra peningamagni í umferð, vöxtum, bindiskyldu og í flestum löndum gert er ráð fyrir að þeir veiti bönkum lán þegar þeir lenda í lausafjárþurrð. Seðlabankarnir eru bankar bankanna og eiga að gæta að stöðugleika þeirra. Lagabálkar um fjármálastarfsemi eru miklir að vöxtum og stórar ríkisstofnanir hafa eftirlit með að farið sé að þessum lögum og öðrum reglum. Fáar atvinnugreinar eru í svo strangri gæslu ríkisins. Flóknar reglur og kostnaðarsamt eftirlit af þessu tagi auka miðstýringu og samþjöppun og draga úr samkeppni því litlar einingar eiga erfitt með að standa undir fasta kostnaðinum af slíku. Þessi þvingaða samþjöppun í stórar einingar getur leitt til annarrar áhættudreifingar en ella væri í atvinnugreininni. Annað hvort fellur allt eða ekkert. Að auki hefur ríkisvaldið ýmis önnur afskipti af þessum markaði líkt og með niðurgreiðslu á lánsfé til húsnæðiskaupa. Hér á landi og víðar starfa jafnvel opinberir húsnæðislánasjóðir sem hafa stundað æðisgengna keppni við bankana. Þessi sjóðir hafa verið undir pólitískum þrýstingi um að lána fleirum og með hærra veðsetningarhlutfalli en varkárar fjármálastofnanir ættu að gera. Uppskeran af þessum ríkisafskiptum af fasteignamarkaði kallast nú undirmálslán. Það má því hiklaust segja að fjármálastarfsemi hafi verið dæmi um blandaða efnahagsstarfsemi, blöndu einka- og ríkisrekstrar undir miklu eftirliti og afskiptum hins opinbera. Grunnurinn sem þessi blandaða starfsemi hvílir á er útgáfa ríkisins á gjaldmiðli og stjórn þess á peningamálum. |
Og Sigríður útskýrði nánar í hverju hin pólitíska stjórn peningamála felst og hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér þegar stjórnmálamenn freistast til að dæla ódýru eða niðurgreiddu lánsfé út á markaðinn:
Margt bendir til að lausatök í stjórn peningamála hafi einmitt komið bólunni, sem nú er að springa, af stað. Seðlabankar heimsins hafi aukið peningamagn í umferð án þess að samsvarandi sparnaður hafi átt sér stað. Seðlabankarnir hafa jafnframt lækkað stýrivexti og þannig komið af stað óraunhæfum væntingum. Þetta er ekki nýtt af nálinni. Austurrísku hagfræðingarnir Ludwig von Mises og Friedrich von Hayek vöruðu ætíð við þeirri freistingu sem felst í seðlaprentunarvaldi ríkisins og því ójafnvægi sem óhófleg beiting þess getur af sér. Útlán og peningar sem byggjast ekki á raunverulegum sparnaði eru skammgóður vermir. Útlán fjármálastofnana sem ekki er mætt með samsvarandi sparifé ýta undir óhóflega bjartsýni athafnamanna. Bygginga- og fasteignamarkaðurinn á undanförnum árum er gott dæmi um þetta. Með öðrum orðum má segja að athafnamennirnir hegði sé eins og þeir séu að mæta auknum sparnaði almennings sem síðan reynist ekki vera til staðar. Menn þekkja vel úr landbúnaði að niðurgreiðslur ríkisins valda offramleiðslu. Lánsfé á niðursettum vöxtum veldur almennri offjárfestingu. Þessi afvegaleiðing í hagkerfinu hefur óhjákvæmilegar afleiðingar. Dæmið gengur ekki upp. Fyrr en varir sígur á ógæfuhliðina, samdráttur tekur við og sársaukafull en nauðsynleg leiðrétting á sér stað. Í leiðréttingunni felst undantekningarlaust endurskoðun á öllum fjárfestingum. Við stöndum nú á þessum tímamótum. |
Hvernig stendur þá á því að Íslendingar urðu svo hart úti? Ekki var lánsfé á útsölu hérlendis? Nei, stýrivextir Seðlabanka Íslands voru þvert á móti svimandi háir undanfarin ár. En Íslendingar höfðu aðgang að ódýru erlendu lánsfé og hinn mikli vaxtamunur við útlönd gerði innflutning lánsfjár afar girnilegan. Seðlabanki Íslands verðlagði krónuna út af markaðnum og inn streymdi lánsfé úr erlendum seðlabönkum á niðursettum vöxtum. Því miður bitu margir á agnið og eins og Sigríður segir tók við tímabil útlánaþenslu og offjárfestingar á nær öllum sviðum þjóðfélagsins. Við þetta bættist svo taumleysi í fjármálum ríkis og sveitarfélaga.
Íslenskir bankamenn voru ekki þeir einu sem létu hið ódýra erlenda fjármagn leiða sig af réttri braut. Fyrirtæki í öllum greinum atvinnulífsins eltu þessa gulrót. Þúsundir íslenskra heimila sömuleiðis. Ódýru peningarnir gerðu mönnum kleift að veita sér alls kyns áður óþekktan munað. Það kann að svala einhverjum að kalla allt þetta fólk spillt en í flestum tilvikum gættu menn einfaldlega ekki að sér.
Stóra viðfangsefnið er að koma í veg fyrir að pólitísk stjórn peningamála í heiminum afvegaleiði atvinnulífið og almenning í sífellu á þennan hátt. Eina varanlega ráðið er að taka seðlaprentunarvaldið af ríkinu.