Í fréttum Ríkissjónvarpsins á mánudaginn var sagt frá því að margir útlendingar sem búa hér á landi ætli að vera hér áfram þrátt fyrir versandi efnahagsástand enda er atvinnuástandið mun verra víðast hvar í Evrópu. Margrét Jónsdóttir vararæðismaður Spánar á Íslandi var spurð að því hvort Spánverjar sem hér búa og starfa séu á leið suður á bóginn:
Ó, nei, hvað ættu þeir að sækja þangað svosem því nú ganga þrjár milljónir manna atvinnulausar um Spán. Atvinnulausum útlendingum fjölgaði um tæp fjögurhundruð þúsund á árinu.
Þetta bitnar sérstaklega á ungu fólki, það fær ekki fastráðningu þegar það sækir um vinnu að námi loknu og jafnframt bitnar þetta mikið og illa á konum. |
Margrét bætti svo við að spænskum námsmönnum fjölgi ört hér á landi því hér eigi þeir möguleika á vinnu með námi sem sé útilokað á Spáni.
Atvinnuleysi á Spáni er nú um 12% og búist er við að það fari í allt að 18% á næsta ári. Spánverjar hafa notað evruna sem gjaldmiðil frá aldamótum en hún kom ekki í veg fyrir að þar myndaðist fasteignabóla á undanförnum árum sem nú er sprungin með hvelli. Milljón íbúðarhús standa nú tóm á Íberíuskaganum.
Spænski hagfræðiprófessorinn Jesús Huerta de Soto hefur lýst því hvernig fasteignabólan varð til á Spáni í kjölfar upptöku evrunnar:
Þegar vextir lækkuðu á Spáni vegna þátttöku í myntsamstarfinu voru viðbrögðin eins og vænta mátti: mikið framboð af ódýrum peningum úr spænskum bönkum, einkum til að fjármagna spákaupmennsku á fasteignamarkaði. Þetta lánsfé bjuggu spænsku bankarnir til ex nihilo. Stjórnendur Seðlabanka Evrópu létu sem ekkert væri. |
Í umræðunni að undanförnu hafa menn því miður haft lítinn áhuga á raunverulegum ástæðum hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu; útlánaþenslunni sem á upptök sín í ríkisreknu peningakerfi heimsins, seðlabönkunum.