Í gær gafst Þór Sigfússon formaður Samtaka atvinnulífsins upp á að reyna að sannfæra félagsmenn samtakanna um kosti aðildar Íslands að ESB. Þá tekst það væntanlega aldrei. Samtökin hafa því tilkynnt að þau muni ekki beita sér fyrir aðild. Í dag bisa Valhallarmenn hins vegar áfram við það vonlitla verk að troða ESB aðild Íslands oní almenna sjálfstæðismenn. Verkhópur um utanríkis- og öryggismál heldur fund í hádeginu undir forystu ESB-sinnanna Jóns Hákons Magnússonar og Einar Benediktssonar.
Þessi framkoma forystu Sjálfstæðisflokksins gagnvart almennum félagsmönnum leiðir hugann að einu máli. Fyrir tveimur árum voru sett sérstök lög um fjármál stjórnmálaflokka. Með lögunum varð grundvallarbreyting á eðli íslenskra stjórnmálaflokka. Í stað þess að vera frjáls félagasamtök sem lúta eigin reglum og aðhaldi almennra félagsmanna, fjölmiðla og kjósenda urðu flokkarnir nokkurs konar ríkisstofnanir á fjárlögum ríkisins. Ríkisframlög til þeirra voru stóraukin. Boð og bönn ríkisins tóku við reglum flokkanna sjálfra um innri málefni þeirra og fjármál þeirra og önnur starfsemi er undir eftirliti ríkisendurskoðunar. Starfsmenn flokkanna eru í raun orðnir opinberir starfsmenn.
Þetta þýðir að forysta og starfsmenn flokkanna eru orðnir nær ónæmir fyrir almennum félagsmönnum. Þeir fá sitt ríkisframlag á hverju sem dynur. Forystan getur því óhikað farið fram með hvað sem er milli landsfunda flokksins. Í haust hefur forysta Sjálfstæðisflokksins til dæmis boðið upp á gjaldeyrishöft, skattahækkanir, ótrúlega skuldsetningu ríkisins og er að gæla við að fullkomna forræðishyggjuna með því að fela ókjörnum embættismönnum í Brussel stjórn flestra mála hér á landi. Það hefur engin áhrif að hætta að borga félagsgjöldin í flokkinn. Forystan notar bara ríkisstyrkinn til að kynna málstað sinn á fullum dampi.
Önnur áhrif sem þessi lög hafa er að nýjum framboðum er gert sérlega erfitt fyrir. Þau geta ekki reitt sig á fjárstuðning ríkisins og er sniðinn mjög þröngur stakkur um framlög frá einstaklingum og fyrirtækjum.
Lögin tryggja því ekki aðeins stöðu ráðandi afla innan stjórnmálaflokkanna heldur draga mjög úr svigrúmi til að stofna nýja flokka.
Hefur annars einhverjum fjölmiðli dottið í hug að skoða hvernig framlög ríkisins til þing- og stjórnmálaflokkana hafa þróast undanfarin ár? Verða þau ekki örugglega skorin niður á næsta ári?