Þ að er engu líkara en að Íslendingar séu að stíga inn í veröld sem var. Búið er að hækka ýmsa skatta, ríkisvæða bankakerfið að nýju, koma á hafta- og skömmtunarstefnu, stjórnmálavæða atvinnu- og efnahagslífið, ríkisstjórnin hefur lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir 160 milljarða króna halla sem velt verður yfir á skattgreiðendur framtíðarinnar og til að toppa allt saman hefur fjármálaráðherra lagt fram frumvarp þar sem fjármálastofnunum verður gert skylt að senda skattyfirvöldum ár hvert upplýsingar um bankainnstæður og innstæður í sjóðum ásamt upplýsingum um vexti af viðkomandi innstæðum. Efnahags- og stjórnmálavaldið í landinu er þannig meira og minna komið í hendur stjórnmála- og embættismanna. Því er ekki skrýtið að það fari um ýmsa Íslendinga, jafnvel þá sem öllu jafnan flokkast ekki undir frjálslyndari hluta þjóðarinnar. Íslensk yfirvöld bjóða þegna sína velkomna til Nýja Íslands og að mestu leyti hefur þetta gerst gagnrýnislaust. Þjóðin virðist vera í losti eftir hrun bankanna og ekki átta sig á því sem er í gangi.
„…þar sem verulegur skortur er á að lýðræðislegum aðferðum sé beitt við val á þeim sem ESB stjórna, skorts á lýðræðislegu aðhaldsverki þar sem reglugerðasjúkt embættismannakerfi ræður ríkjum. Tollabandalag sem vill tryggja frjáls viðskipti innan sambandsins en ekki sambandsríkjanna við umheiminn, samband sem telur að frjáls viðskipti felist í því að setja sem flestar reglur um viðskiptin. Samband sem er svo fjarri flestum borgurum þess, bæði landfræðilega og hugarfarslega, að borgararnir eiga ekki möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri við embættismannaverkið.“ |
Nú er jafnframt svo komið að háværir fjölmiðla- og stjórnmálamenn ásamt sjálfskipuðum álitsgjöfum um allt milli himins og jarðar kippa ærunni í einu lagi af hópi manna sem gerst hafa sekir um það eitt að flokkast undir að vera auðmenn. Enginn greinarmunur er gerður á þeim sem hugsanlega eða sannanlega hafa brotið lög og þeim sem engar sérstakar vísbendingar eru um að hafi gert slíkt. Allir eru settir undir sama hatt. Minni spámenn í stétt stjórnmálamanna sitja í besta falli þegjandi hjá eða sem verra er, taka undir múgæsinginn. Svo furða menn sig á því að þeir sem ýmsir kalla auðmenn hverfi af landi brott með eigur sínar.
Aðgerðir yfirvalda undanfarnar vikur vinna beinlínis gegn og hefta hinn frjálsa markað. Þeim mun lengur sem ástandið varir þeim mun dýpri mun kreppan verða og vara lengur. Völd eru vandmeðfarin og það er ekki auðvelt fyrir stjórnmálamenn þegar kreppa brestur á að beita þeim hóflega og sölsa ekki of mikið undir sig.
Í ljósi þessa ber að fagna sérstaklega endurútgáfu bókanna Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson og Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt en báðar bækurnar fást hér. Bók Jakobs minnir okkur á afleiðingar verslunar- og gjaldeyrishaftanna sem í gildi voru á Íslandi í þrjá áratugi frá árinu 1930 en auðvitað var hugmyndin þá eins og nú að gjaldeyrishöftin yrðu aðeins til bráðbirgða. Þörf áminning um þjóðfélag sem enginn vill skapa að nýju. Þjóðfélag pólitískrar spillingar og úthlutunar þar sem hið eina sem dugði var rétt flokkskírteini.
Bók Henry Hazlitt varðar hins vegar leiðina, fjallar um það sem hafa verður að leiðarljósi þegar tekist er á við þann vanda sem nú er við að etja. Hvað ber að forðast og hvað ber að tryggja til að skapa frjálst, réttlátt og sterkt efnahagslíf.
Ýmsir hafa viljað nýta það upplausnarástand sem fjármálakreppan hefur leitt af sér til að þrýsta á um inngöngu Íslendinga í Evrópusambandið. Áfram að kyrjað að kanna þurfi kosti og galla aðildar og leggja þá á borðið. Þeir hafa þó legið fyrir um árabil og verið ræddir í þaula. Það er því hálfgert grín þegar nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins þykjast ekki geta gert upp hug sinn í þessum efnum fyrr en fjallað hefur verið um málið í nýrri nefnd flokksins fyrir landsfund flokksins í janúar. Óvissan um Evrópusambandið liggur ekki í því hvernig sambandið er núna heldur hvernig það verður eftir nokkur ár. Það veit enginn.
Vefþjóðviljinn hefur undanfarinn áratug margsinnis bent á ókosti ESB, ókosti sem útilokað hafa aðild Íslands að sambandinu. Ekki síst vegna grunngerðar og stofnanauppbyggingar þess, þar sem verulegur skortur er á að lýðræðislegum aðferðum sé beitt við val á þeim sem ESB stjórna, skorts á lýðræðislegu aðhaldsverki þar sem reglugerðasjúkt embættismannakerfi ræður ríkjum. Tollabandalag sem vill tryggja frjáls viðskipti innan sambandsins en ekki sambandsríkjanna við umheiminn, samband sem telur að frjáls viðskipti felist í því að setja sem flestar reglur um viðskiptin. Samband sem er svo fjarri flestum borgurum þess, bæði landfræðilega og hugarfarslega, að borgararnir eiga ekki möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri við embættismannaverkið. Samband sem er svo flókið í uppbyggingu sinni og ákvarðanatöku að borgararnir skilja ekki nema að litlu leyti hvað þar fer fram. Samband þar sem ekki gætir jafnræðis meðal aðildarríkjanna, þar sem stærri aðildarríkin hafa aukinn rétt og smærri aðildarríkin eru nánast valdalaus. Hér má lesa eina af nýjustu hugleiðingum Vefþjóðviljans um ESB. Það er því ekki að undra að allflestir frjálslyndir menn gjalda varhug við ógnarbákninu, embættismannaveldinu, ólýðræðislega hálfríkinu.
Vefþjóðviljinn er mótfallinn ESB-aðild Íslands meðal annars af lýðræðishugsjónum og vegna þeirra skorða sem það setur frelsi borgaranna og efnahagslífinu. Frelsið hefur verið meira á Íslandi en í ESB, höftin færri, lýðræðið betur tryggt, sjálfsákvörðunarréttur betur tryggður og svo mætti lengi telja.
Bjartsýnir menn á Íslandi vona auðvitað að það regluverk, höft og njósnanet sem Alþingi hefur kastað yfir landsmenn að undanförnu séu skammtímaráðstafanir. Það ber jafnframt að gjalda miklum varhug við þeirri umræðu sem upp hefur sprottið þar sem menn eru athugasemdalaust sakfelldir af dómstóli götunnar og stjórnmálamanna sem vilja slá sig til riddara. Íslendingum stendur ógn af tilburðum ríkisvaldsins þar sem höft eru sett á verslun og viðskipti, stór hluti atvinnulífsins er þjóðnýttur og yfir það settar pólitískar stjórnir, bankaleynd er ekki bara aflétt heldur eiga nú bankar og fjármálastofnanir að dæla öllum upplýsingum um fjármál einstaklinga sjálfkrafa til skattayfirvalda. Ástandið er farið að líkjast 4., 5. og 6. áratugnum ískyggilega. Allt er þetta afsakað með þörfinni fyrir ábyrgri stjórn og gegnsæi og látið sem þetta sé hið sjálfsagðasta mál.
Allt verður þetta verra í ljósi þess að íslensk stjórnmál hafa verið ríkisvædd eins og Vefþjóðviljinn hefur svo oft gagnrýnt. Árið 2006 voru samþykkt lög um fjármál stjórnmálasamtaka sem fólu í sér að framlög skattgreiðenda til flokka þingmanna voru stóraukin. Á sama tíma voru settar gífurlegar skorður á möguleika einstaklinga til að styrkja pólitísk samtök, sem auðvitað dregur úr möguleikunum á að stofna nýja flokka. Þannig hafa ríkjandi flokkar og stjórnmálamenn tryggt sig í sessi og gert öðrum illkleift að stofna flokka til höfuðs þeim. Ekki er þetta beinlínis í lýðræðislegum anda.
Vefþjóðviljinn óttast fátt meira en góðan vilja stjórnmálamanna og embættismanna við svona aðstæður. Þeir draga til sín völd sem aldrei fyrr og gera markaðinn að blóraböggli. Flestir vilja stjórnmála- og embættismennirnir kannski vel og hugsa ráðstafanirnar núna til skamms tíma. En á það skal bent að skammtímaráðstafanir stjórnvalda hafa tilhneigingu til að verða til langframa og vinda upp á sig. Söluskattur upp á 3% árið 1960 er orðinn að 24,5% virðisaukaskatti nokkrum áratugum síðar.
Það er hætt við að langt verði þar til þau vandamál sem Ísland stendur frammi fyrir verði leyst, ekki síst þar sem stjórnvöld virðast ekki hafa dug til að skera niður í ríkisfjármálum en ætla þess í stað að skila fjárlögum með hræðilegum halla. Það munu jafnvel líða áratugir þar til Ísland vinnur að fullu bug á afleiðingum þessarar kreppu. Er það sá skammi tími sem þessar ráðstafanir eru nauðsynlegar?