Eigið þér grænmeti? var spurt í verslun. Kaupmaðurinn svaraði: Nei en við eigum græna málningu. |
– Samtal í verslun á Íslandi á haftaárunum, Þjóð í hafti. |
Þ
Einfalt að panta í Bóksölu Andríkis. |
að vantar ekki að menn þykjast með ýmsum hætti hafa séð efnahagshrun liðinna mánaða fyrir. En fáa óraði líklega fyrir því að haustið 2008 yrði búið beint og óbeint að þjóðnýta stóran hluta atvinnulífsins, setja pólitíska stjórn yfir stærstu banka landsins og setja gjaldeyrishöft á landsmenn. Og þó. Jakob F. Ásgeirsson höfundur bókarinnar Þjóð í hafti hefði ekki getið valið betri tíma til endurútgáfu á þessari bók sinni. Þjóð í hafti kom fyrst út fyrir tuttugu árum og hefur verið ófáanleg um árabil.
Í bókinni rekur hann sögu verslunarhafta á Íslandi á árunum 1930 til 1960. Hún er lyginni líkust. Öll verslun var í fjötrum pólitískrar skömmtunar og leyfa. Ekki mátti flytja bók til landsins án þess að biðja um leyfi yfirvalda. Höftin gátu af sér vöruskort, biðraðir og spillingu. Menn keyptu það sem fékkst hverju sinni, jafnvel græna málningu í stað grænmetis, í þeirri von að geta skipt vörunni fyrir aðra gagnlegri síðar. Sérlega sláandi eru lýsingar á því hvernig skömmtunarkerfinu var misbeitt í þágu Sambands íslenskra samvinnufélaga.
Gísli Jónsson alþingismaður lýsti afleiðingunum af því að gjaldeyrir var skammtaður og leyfi þurfti til allra vörukaupa í þingræðu 1953: „Alveg ný, óþekkt og óholl stétt manna reis upp, þ.e. þeir sem gerðu sér það að atvinnu að afla sér leyfa og selja þau aftur sárþurfandi mönnum fyrir okurfé, mönnum sem vegna atvinnu sinnar gátu ekki verið án vörunnar og höfðu enga möguleika til þess að geta fengið leyfin sjálfir. Var þessi atvinna oft miklu gróðavænlegri en vöruverslunin sjálf. Þessi helstefna náði þó hámarki þegar atvinnufyrirtækin sjálf, ný og gömul, urðu að lúta þessu fyrirkomulagi. Verður ekki með tölum talið það tjón, sem útflutningurinn, framleiðslan og stynjandi atvinnulaus vinnulýðurinn beið við þetta fyrirkomulag.“
Fjölmargar dæmisögur af raunum almennra borgara og forsvarsmanna fyrirtækja eru í bókinni. Ein þeirra er af tilraunum Arons Guðbrandssonar til að kaupa sér peru í framlugt bifreiðar sinnar veturinn 1937 en þeim hafði hann lýst í viðtali í Frjálsa verslun árið 1947. Árla morguns fór Aron að ráðum góðs manns og bankaði upp á hjá lager bifreiðaeinkasölunnar við Sænska frystihúsið. Þaðan var honum vísað á skrifstofuna í Lækjargötu því ekkert væri afgreitt af lager án fyrirskipunar frá skrifstofunni. Þegar þangað var komið var honum sagt að bifreiðaeinkasalan hefði ekkert með perur að gera. Þær fengjust auðvitað í raftækjaeinkasölunni. Honum var vísað á lager raftækjasölunnar en þar var sama viðkvæðið og á lager bifreiðasölunnar: Ekkert er afgreitt án tilvísunar frá skrifstofu. Líklega hefur Aron hrósað happi að skrifstofan var uppi á lofti í sama húsi. Þar var honum hins vegar sagt að ekkert væri selt nema í heildsölu og lágmarskafgreiðsla væri sjötíu perur. Aron falaðist því eftir að fá eina peru gefins en starfsmaður einkasölunnar kvaðst ekki geta gefið eigur annarra. Þá mun Aron hafa sagt: „Viljið þér vera svo góður að að segja mér hvar perurnar eru svo ég geti stolið einni.“ Ekki féllst embættismaðurinn á að stuðla að þjófnaði frá ríkinu en eftir þref og stapp samþykkti hann að leysa málið með því að skrifa peruna á reikning stórs viðskiptavinar og færa um leið greiðslu inn á reikning hans. Aron fékk við svo búið ávísun á peruna því auðvitað var hana ekki að finna á skrifstofunni heldur á vörulofti raftækjaverslunarinnar í Hafnarhúsinu. Þegar Aron hafði loks fundið geymsluna í hinu mikla Hafnarhúsi voru starfsmenn þar farnir heim í mat.
Þjóð í hafti er 374 síður og hana prýðir fjöldi skopmynda. Þessi ómissandi bók fæst nú að sjálfsögðu í Bóksölu Andríkis. Hún kostar kr. 1.990. Heimsending innanlands er innifalin í verði. Sending til útlanda kostar kr. 600.
Vinsamlega framvísið réttum leyfisbréfum til vörukaupa og heimild til utanríkisviðskipta ef senda á verðmæti úr landi. Félagar í stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á bankaráði ganga fyrir.