M aður nokkur boðar alla landsmenn til útifunda, að eigin sögn til þess hver og einn „mótmæli“ því sem hann vill „mótmæla“. Hann velur sem ræðumenn fólk sem hvetur jafnvel til þess að fundarmenn taki völdin í landinu með byltingu ef ekki takist að hræða rétt kjörið alþingi til að afsala sér völdum. Í fundarlok hvetur hann, með öskri, fundarmenn til að skálma að lögreglustöð og fá handtekinn mann leystan úr haldi. Aðspurður telur fundarboðandinn að hann beri enga ábyrgð á því sem fundarmenn gera, hvort sem er á Austurvelli eða annars staðar. Hann persónulega hafi nefnilega aldrei hvatt til óspekta.
Þetta finnst mörgum mjög sanngjarnt. Ekki geti skipuleggjendur funda borið ábyrgð á því sem fundarmenn gera að fundi loknum. Og já, það er skiljanlegt sjónarmið.
En hvernig er þetta í samanburði við það sjónarmið að stjórnvöld beri alla ábyrgð á því hvernig fór fyrir bönkunum – af því að ríkið seldi bankana fyrir áratug?
S vo firrt er opinber umræða nú um stundir, að því er í alvöru haldið fram að það sé lögreglunni að kenna að hópur manna hafi með múrsteinum brotið sér leið inn á lögreglustöð. En ekki þeim að kenna sem það gerðu. Svokallaðir fréttamenn leggjast í lúsaleit til að kanna hvort öllum formreglum hafi verið fullnægt með bréfasendingum með löngum fyrirvara áður en hinn handtekni maður var tekinn. Rétt eins og það skipti einhverju máli í samhenginu.
Það er einfaldlega ólöglegt, stóralvarlegt athæfi – og í raun tilraun til að taka völdin í þjóðfélaginu – að frelsa handtekinn mann úr vörslum lögreglunnar. Það skiptir engu hversu réttmæt handtaka hans var.
Ef lögreglan einn daginn færi mannavillt, handtæki Jón Bjarna í staðinn fyrir Jón Odd, þá veitti það öðru fólki nákvæmlega enga heimild til þess að ná sér í múrsteina og brjótast inn á lögreglustöðina. Það er með hreinum ólíkindum að meðvirkni fréttamanna sé orðin slík, metnaður þeirra í að velgja „ráðamönnum“ undir uggum orðinn slíkur, að þeir bjóði upp á þann þvætting sem þeir nú gera dag eftir dag, í hverju máli á fætur öðru. Ef maður er ranglega handtekinn á hann rétt á skaðabótum úr ríkissjóði. En ekki því að vinir hans mæti og mölvi lögreglustöðina.
En svona er öll umræða þessar vikurnar. Og menn sem boða fundi, þeir bera enga ábyrgð á því sem þar gerist. Þeir sem brjótast inn á lögreglustöðina, þeir bera enga ábyrgð á þeim gjörðum sínum. Það er lögreglunni að kenna. Menn sem halda úti heimasíðum með stóryrðum munu eflaust ekki telja sjálfa sig bera neina ábyrgð þegar að því kemur einhver lesandinn grípur til ofbeldis eftir lesturinn. Fólk er margt hvert í uppnámi þessar vikurnar. Það er ábyrgðarhluti að halda að því upphrópunum og stóryrðum eins og margir, jafnvel starfandi fjölmiðlamenn, gera nú um stundir, sumir oft á dag.
Og yfir hverju eru allir þessir menn reiðastir? Jú, því að enginn „beri ábyrgð“. Að „allir“ segi: „ekki benda á mig“.