The urge to save humanity is almost always a false front for the urge to rule. |
– H.L. Mencken |
N ú er komið á daginn að helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar er að bjarga mannkyninu. Eftir að henni mistókst að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, sem hefur með höndum björgun alls mannkyns, sneri hún sér að þeim hluta þess sem býr á Íslandi og annað hvort getur ekki eða vill ekki flytja þaðan á burt. Enda er Ísland orðið miklu meira spennandi fyrir þá sem þrá að bjarga mannkyninu, nú þegar komin er kreppa. Nú er upp runnin gósentíð þeirra sem öllu ætla að bjarga fyrir alla. Þeirra sem allt ætla að gera fyrir alla. Þeirra sem allt ætla að borga fyrir alla. Því nú stefnir í að bókstaflega öllu og öllum þurfi að bjarga, nema auðvitað björgunarmönnunum sjálfum. Þeir bjarga sér.
Öllum innistæðum í bönkum á að bjarga. Ekki bara hluta þeirra og ekki bara þeim sem geymdar voru á sparibókum eins og lög gerðu ráð fyrir. Nei, barasta öllum, líka þeim sem voru í peningamarkaðssjóðunum sem núna eru illræmdir. Sumir settu fé sitt í þessa peningamarkaðssjóði vitandi að bæði áhættan og hagnaðarvonin væri meiri. Aðrir virðast hafa verið gabbaðir til hins sama, óupplýstir um áhættuna en upplýstir um hagnaðarvonina. Ef öllum þessum verður bjargað, þá er ekki bara verið að bjarga þeim sem voru gabbaðir eða þeim sem tóku áhættu vitandi vits heldur líka þeim sem stóðu að vitlausum fjárfestingum sjóðanna og síðast en ekki síst þeim sem göbbuðu fólk til að festa fé sitt í þeim án þess að vara það við hættunni. Það bjargast þarna allir nema skattgreiðandinn.
Bönkunum sjálfum á að bjarga með fullt af peningum og forskeytinu nýi. Sunnudaginn, áður en Glitnir fékk tilboð sem hann taldi sig geta hafnað en taldi sig svo skömmu síðar ekki geta hafnað, sagði bankastjóri Glitnis í viðtali í ríkissjónvarpinu að viðskiptavinir banka í vestrænu hagkerfi gætu verið öruggir með innistæður sínar, jafnvel þótt bankinn færi á hausinn. Fjórum dögum seinna stóð bankastjóri þessi frammi fyrir því að geta ekki borgað af láni á gjalddaga og ef marka má orð hans fjórum dögum fyrr þá virðist hann hafa farið með þessa möntru sína í huga sér: ég er bankastjóri, í banka, í vestrænu hagkerfi, ergo innistæðueigendur hjá mér eiga ekkert að óttast. Og með það sama farið í Seðlabankann til að taka út yfirdráttinn sinn. Þetta vekur óneitanlega upp spurninguna um hvort forstjóri sem trúir því statt og stöðugt að einungis vegna þess að fyrirtæki hans er í einum rekstri en ekki öðrum og í vestrænu hagkerfi en ekki austrænu að þá séu viðskiptavinir hans öruggir með sitt, hvort það geti hugsast að sá forstjóri sé kannski tilbúinn til að taka svolítið meiri áhættu en annars? Eða kannski bara miklu meiri áhættu en annars?
En bönkunum verður sem sagt bjargað og á fyrstu dögum sínum í embætti bætti Björgvin björgunarmálaráðherra um betur og sagði að öllum bankastarfsmönnunum yrði líka bjargað en breytti svo skömmu seinna nýbjörguðum bönkunum í nýju bankana og bjargaði þeim þar með frá því að þurfa að bjarga öllum bankastarfsmönnunum. Þar með var öllu banka-eitthvað bjargað.
Öllum sem tóku lán á að bjarga en bara ekki frá verðbólgunni eða lágu gengi krónunnar heldur frá því að geta borgað lánin nokkurn tíma til baka. Er þetta tíundað í heilsíðuauglýsingum í dagblöðunum í dag. Markmiðið er að lækka greiðslubyrði af lánum á meðan núverandi ríkisstjórn situr. Það er sniðugt. Fyrir núverandi ríkisstjórn.
Barnabótum og vaxtabótum á að bjarga frá því að verða teknar upp í annað sem fólk skuldar ríkinu. Engum verður þó bjargað frá því að borga skatta til þess að ríkið geti bjargað viðkomandi með því að greiða honum bætur fyrir börn og vexti. Bjargráðið felst í því að ríkið taki fyrst og gefi svo. Ekki að ríkið sleppi því bara að taka.
Atvinnulausum á að bjarga með greiðslum úr atvinnuleysistryggingasjóði. Það gæti þó orðið skammvinn björgun því á árunum þegar allt lék í lyndi og stjórnmálamenn höfðu eiginlega engan lengur til að bjarga breyttu þeir sjóðnum í fæðingarorlofssjóð og fóru að bjarga öllum þeim pörum höfðu orðið fyrir því áfalli að eignast barn og þurftu á c.a. 80% launa sinna að halda í níu mánuði, þrátt fyrir að mæta ekki til vinnu, auk oft á tíðum svartrar yfirvinnu til að mæta fjárhagstjóninu sem hlaust af. Í þennan sjóð rann atvinnuleysistryggingasjóður enda enginn atvinnulaus þá en næstum allir óléttir.
Íbúðalánasjóði á svo að bjarga með öllum ráðum og færa honum öll bestu lán hinna bankanna enda sjálfsagt að þakka honum fyrir að hafa, í samstarfi við stjórnmálamenn, hannað, markaðssett og selt íslenska útgáfu undirmálslánanna, vaðmálslánin sem voru fyrir allt að níutíu af hundraði fasteignaverðs og plægðu þannig akurinn fyrir allt hið merka og göfuga björgunarstarf sem nú er rétt að hefjast.
Þjóðfélaginu öllu á að bjarga frá óheftri ný-frjálshyggju, óheftri frjálshyggju, óheftum kapítalisma, óheftu frelsi, óheftri græðgi, óheftu þessu og óheftu hinu. Enda sjást þeir, sem hafa það helst að hugsjón að bjarga einstaklingnum frá sjálfum sér og þjóðfélaginu frá einstaklingnum, nú æ víðar munda heftibyssur sinnar gömlu hugmyndafræði og segjast í þetta sinn ætla að hitta í mark. Byssurnar eru nútímalegri og heftin samkvæmt reglugerð alríkisstjórnarinnar í Brussel.