Mánudagur 10. nóvember 2008

315. tbl. 12. árg.

Í sumar lögðu 120 þúsund hollenskir sparifjáreigendur fé inn á netreikninginn Icesave í íslenskum einkabanka, sem þeir þekktu hvorki haus né sporð á, í von um að fá örlítið hærri vexti en hollenskir bankar buðu. Þessum netreikningum var lokað í byrjun október þegar einkabankinn gat ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar.

Í gær bauð Egill Helgason hollenskum blaðamanni að nafni Jan Gerritsen frá NRC Handelsblad í þátt sinn í Ríkissjónvarpinu. Þeir ræddust við í nokkrar mínútur um þessa Icesave reikninga Landsbankans í Hollandi og kepptust við að lýsa hneykslun sinni á því að íslenska ríkið væri ekki búið að lýsa sig ábyrgt fyrir þessum netreikningum einkabankans. Þetta er evrópskur hugsunarháttur í hnotskurn. Ef eitthvað ber út af þá á ríkið að hlaupa undir bagga og skattgreiðendur að fá reikninginn.

Það er eiginlega ótrúlegt að Agli dytti ekki í hug að spyrja blessaðan blaðamanninn hvort hann teldi eðlilegt að íslenskir skattgreiðendur bæru ábyrgð á ævintýrum íslensks einkafyrirtækis og hollenskra sparifjáreigenda.

Egill Helgason fullyrti jafnframt fyrr í þættinum að nú um stundir kæmu upp „ný spillingarmál nánast á hverjum degi“ á Íslandi. Um hvað er maðurinn að tala? Hvaða tíu ný „spillingarmál“ hafa til dæmis komið upp síðustu tvær vikurnar? Mesti æsingurinn síðustu dagana hefur til dæmis snúist um nokkurra ára gamla kaupréttarsamninga og gamlar sögur um óleyfilegar millifærslur af reikningum FL Group. Bæði málin voru fréttaefni og mikið rædd á sínum tíma.

Það velkist hins vegar enginn í vafa um að ýmis mál sem orka tvímælis munu koma upp úr kafinu nú þegar fjármálakerfi landsins hefur hrunið til grunna. Og það er jafn víst að með þjóðnýtingu bankanna mun slíkum málum fjölga snarlega.

Á laugardaginn var útifundur á Austurvelli, þar sem hópur fólks lét í ljós óánægju sína með ástand efnahagsmála. Slíkt er ekki í frásögur færandi í lýðræðisríki og sjálfsagt að fólk láti skoðun sína í ljós. Lýðræði byggir á frjálsum skoðanaskiptum og kostur lýðræðisins er einmitt að það gefur borgurunum kost á að koma skoðunum sínum á framfæri á fundum sem þessum og hafa áhrif á framvinduna í reglulegum og frjálsum kosningum.

Þeir óvanalegu og hryggilegu atburðir áttu sér stað á þessari samkomu að lítill hópur ungs fólks hafði uppi fádæma skrílslæti, lítilsvirti æðstu stofnun lýðræðisins með eggjakasti og reisti henni níðstöng með því að draga grísafána að húni.

Fyrirfram hefði mátt gera ráð fyrir að fólk, sem er nógu annt um samfélag sitt til mæta á mótmælafundi, hefði brugðist hið versta við og hjálpað lögreglu að hafa hendur í hári skrílsins.

Því var ekki að heilsa, þvert á móti hvatti fólkið skrílinn til verka og hindraði síðan framgang lögreglunnar og stöðvaði handtöku hans. Í kjölfarið hafa álitsgjafar gagnrýnt fjölmiðla fyrir að segja frá skrílslátunum og að þeirra sögn dreifa athyglinni frá mótmælunum.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að þessi lítilsvirðing Alþingis er stórfrétt og þessi atburður er ekki bara unglingunum sem þar voru að verki til skammar, heldur ekki síður og jafnvel enn frekar þeim fullorðnu sem hvöttu þá til dáða.