Þriðjudagur 28. október 2008

302. tbl. 12. árg.

Í slenskur banki tekur við innlánum frá fólki í Bretlandi og Hollandi með einhvers konar tryggingu íslenska ríkisins. Annað hvort er tryggingin hjá ríkisapparatinu Tryggingasjóði innistæðna eða ríkissjóði Íslands, allt eftir því hver túlkar tilskipanir ESB um málið.

Bankinn lendir svo í vandræðum þegar innistæðueigendur vilja taka peningana sína út. Ráðherrar og embættismenn á Íslandi og í Bretlandi henda málinu á milli sín eins og heitri kartöflu í marga mánuði. Sú „lausn“ er að lokum borin fram af bankanum að Seðlabanki Íslands fyrir hönd íslenska ríkisins skuli leggja fram stórfé til að færa megi ábyrgðina af öllu klabbinu yfir á… breska ríkið.

Það er mikið búið að tala um að frjálshyggjan og ekki síður nýfrjálshyggjan hafi fengið á baukinn undanfarna daga. En hvar er frjálshyggjan í þessari lýsingu hér að ofan? Satt best að segja ber þetta meiri keim af einhvers konar blönduðu hagkerfi þar sem skilin á milli ábyrgðar ríkis og einkafyrirtækja eru óljós.

S amtök atvinnulífsins hafa barist fyrir tvennu undanfarnar vikur. Vaxtalækkun og aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.