K osningabaráttan í Bandaríkjunum tók nýja stefnu um helgina þegar dagblaðið The New York Times lýsti yfir stuðningi við Barack Obama, frambjóðanda demókrata. Jafnvel á Íslandi þóttu þetta stórtíðindi og vinstrifjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið og Morgunblaðið slógu tíðindunum upp, og endursögðu meira að segja að eitt og annað úr leiðara félaga sinna vestanhafs.
Íslensku fjölmiðlarnir sinntu þessum stórtíðindum af næstum sama áhuga og þeir gerðu fyrir fjórum árum þegar The New York Times lýsti jafn óvænt yfir stuðningi við John Kerry, frambjóðanda demókrata.
Eins og Vefþjóðviljinn sagði af því tilefni fyrir fjórum árum þá hefur „stórblaðið“ The New York Times í meira en hálfa öld lýst stuðningi við alla forsetaframbjóðendur demókrata. Í hvert sinn verða íslenskir fjölmiðlamenn verða jafn hissa og spenntir og þeir urðu fjórum árum áður. Enda „stórblað“ á ferð.
Í slenskir fjölmiðlamenn verða spenntir yfir fleiru. Þeir halda margir að það geti verið fréttnæmt að einhver ætli að halda fund. Ef einhver ætlar að halda mótmælafund þá getur hann treyst því að íslenskir fjölmiðlamenn, einkum þeir hjá Ríkisútvarpinu, breyta sér af því tilefni úr fréttamönnum í kynningarmenn og auglýsa fundinn í fréttatímum fyrirfram. Og alltaf þykir þeim fundurinn jafn merkilegur eftir að hann hefur verið haldinn. Þannig mætti Ríkissjónvarpið dag eftir dag að sýna einhvern sem las ljóð gegn virkjun austur á landi, þegar þau samfelldu mótmæli stóðu yfir.
Hvaða frétt er að einhver mótmæli einhverju í lýðræðisríki? Af hverju er það alltaf frétt ef einhver hópur kemur saman utandyra að leggja áherslu á það sama og hann sagði í gær?
Og þetta á raunar ekki aðeins við um mótmælafundi þó það sé algengast. Nýlega hélt Samfylkingin opinn fund með stuðningsmönnum sínum í Reykjavík. Allt í lagi með það, en einhverra hluta vegna gerði Ríkisúrvarpið örstutta frétt í hádegi sama dag um… að það væri búist við góðri fundarsókn. Í því tilfelli var að vísu svolítil réttlæting á „fréttinni“, sem fólst í því að formaður Samfylkingarinnar kom þarna fram á fundi í fyrsta sinn eftir veikindaleyfi, en engu að síður bar „fréttin“ yfirbragð fundarboðs en ekki fréttamennsku.