Ég veit það en ég verð að segja eins og er, að þegar ég hitti kollega þína og þá hina, þá í raun kemur í ljós að það sem okkur var sagt reyndist ekki rétt. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af stöðu bankans í London og þeir héldu áfram að segja okkur að ekkert væri að óttast. |
– Alistair Darling vísar í fund með Björgvini G. Sigurðssyni í símasamtali við Árna Mathiesen. |
H vor kratinn segir satt, Björgvin eða Darling?
Þeir sem fylgst hafa með íslenska viðskiptaráðherranum undanfarna daga sjá vonandi að maðurinn á mjög bágt með sig ef hann heldur að einhver vilji hlusta. Hann er heldur ekki sá sterkasti á svellinu þegar hann fær beiðni um að gera eitthvað fyrir einhvern. Hann svarar umsvifalaust játandi. Svo þarf að draga allt í land daginn eftir, eins og starfsmenn Landsbankans fengu að reyna um starfskjör sín og eins og eigendur peningamarkssjóða munu komast að fljótlega.
Það er satt best að segja ógnvekjandi að þessi maður hafi verið í viðræðum 2. september við breska fjármálaráðherrann um mikilvæga hagsmuni Íslands.
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hélt því fram fyrir nokkrum dögum að það væri óumflýjanlegt að Íslendingar tækju á sig alla ábyrgð af Icesave reikningunum. Þegar hann var spurður um álit sitt á því að Íslendingar tækju ábyrgð á reikningunum í Hollandi sagði í frétt Morgunblaðsins 13. október:
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir þessa lausn óumflýjanlega. Um sé að ræða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafi þurft að semja um. |
Í gærkvöldi sagði hann hins vegar í viðtali við Ríkissjónvarpið:
Þetta er mjög umfangsmikið mál. Þjóðréttarlegar skuldbindingar verður að skýra. Það er ekkert augljóst fyrirfram hverjar þær eru. |
Nú er auðvitað ekki gott að vita hvað Björgvin skiptir títt um skoðun en verður ekki að gera ráð fyrir að hann hafi verið sömu skoðunar á fundinum með Darling í september og hann var í viðtölum hér á landi 13. október?
Það var ekki fyrr en í gær sem Björgvin segir að eitthvað sé óljóst um þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslendinga varðandi Icesave. Fram að því virðist hann hafa verið sannfærður um að íslenskir skattgreiðendur beri alla ábyrgð á skuldum einkafyrirtækis í útlöndum.
Hvaða skoðun viðraði Björgvin eiginlega við Darling 2. september? Ætli einhver fjölmiðill geti spurt ráðherrann að því? Eða er hann skyndilega hættur að skrúfa bílrúðuna niður í hvert sinn sem hann sér hljóðnema?