K ratarnir eru sannarlega komnir aftur. Nú má ekki losa ríkið við bankana nema aðstæður séu réttar, rétti tíminn, rétta verðið í boði, réttu kaupendurnir gefi sig fram og viðri vel til sölu. Þetta er gamli söngurinn frá því í tíð Viðeyjarstjórnarinnar 1991 til 1995. Svo virðist sem hvorki viðskiptaráðherra né formaður fjármálaeftirlitsins hafi haft nokkurn áhuga á því að ræða að gagni við hóp fjárfesta sem vildi kaupa sig inn í Kaupþing og halda rekstri félagsins áfram í stað þess að stofna nýtt félag á grunni þess og setja hið nýja félag undir pólitíska stjórn Björgvins G. Sigurðssonar næstu árin. Björgvin mun kannski ekki skipa aðstoðarmann sinn aftur í stjórn hinna nýju banka en þar verða auðvitað menn sem hann hefur aðgang að – þó ekki væri nema fyrir það eitt að skipa þá í stjórnina – og hver einasta afgreiðsla bankanna verður mörkuð grun um pólitísk afskipti. Það er því miður nauðsynlegt ef bankar eða önnur fyrirtæki eru í eigu ríkisins að þar séu menn á ábyrgð og vegum stjórnmálamanna. Ef að „almenningur“ á að eiga bankana, þá verður ekki hjá því komist að kjörnir fulltrúar þess sama almennings stýri þar málum en bankarnir séu ekki færðir ókosnum og ábyrgðarlausum „fagmönnum“ á vald. Og er þetta enn ein röksemdin gegn ríkisbönkum.
Ef eitthvað er að marka orð og gerðir viðskiptaráðherrans undanfarna daga er því miður fátt sem bendir til annars en að bankarnir verði ríkisbankar það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Það mun jafnframt þýða að hér verður vart hlutabréfamarkaður nema að nafninu til.
Þó kann að vera að kratarnir eigi bágt með að standast eina tillögu um einkavæðingu bankanna. Kannski mætti kalla hana almenningsvæðingu til að þeir gíni við henni. Það mætti senda öllum landsmönnum bréf í bönkunum. Þannig væri þeim ekki aðeins komið úr ríkiseigu heldur allir landsmenn gerðir að þátttakendum á hlutabréfamarkaði og hann reistur úr öskustónni. Vafalaust munu margir ekki kæra sig um frekari þátttöku á þeim markaði eftir reynslu síðustu vikna en þá selja þeir bara bréfið sitt tafarlaust. Þessi leið hefur einnig þann kost að ríkið aflar ekki beinna tekna með henni. Síðast en ekki síst ætti að vera hægt að gera þetta án þess að stjórnmálamennirnir fái á sig endalausar ásakanir um að þeir hafi selt vinum sínum bankana.