S tjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins er hagfræðingur, Jón Sigurðsson fyrrverandi seðlabankastjóri. þar áður alþingismaður og ráðherra Alþýðuflokksins. Jón samdi efnahagsstefnu Samfylkingarinnar, Jafnvægi og framfarir – ábyrg efnahagsstefna, fyrir síðustu kosningar. Síðan hefur Samfylkingin setið í ríkisstjórn.
Seðlabanka Íslands er stýrt af hagfræðingum, en eins og flestir vita er bankanum stýrt af bankastjórn þar sem atkvæði ráða öllum ákvörðunum og tveir af þremur í henni eru hagfræðingar með hálfrar aldar starfsreynslu sem slíkir. Sömu sögu má segja víðast hvar. Seðlabankar og fjármálaeftirlit eru full af hagfræðingum. En flestir eru þeir þó í bönkum heimsins. Þar flæða hagfræðingar um öll gólf og hafa aldrei haft fleiri og fínni gráður. Og alvarleg fjármálakreppa ríkir nú um víðan völl. Það er tæplega hægt að skrifa hana á skort á „faglegu“ starfsliði.
Með þessu er ekki verið að gera lítið úr hagfræðingum heldur miklu fremur benda á að stundum geta jafnvel færustu menn ekki bjargað kerfum sem reist eru á sandi. Peningakerfi heimsins eru ríkisrekin og á meðan svo er verða þau óstöðug. Það gildir einu hve mörgum fræðingum menn hlaða á þau.
E n heimurinn er líka að fyllast af mönnum sem allt vissu betur en aðrir. Allskyns menn koma nú fram og þykjast hafa séð allt fyrir. Gallinn er hins vegar sá, að í mörgum tilfellum er um að ræða menn sem árum saman hafa spáð rangt fyrir um stórt og smátt, þó þeir mæti nú og kynni sig sem nostradamus. Á Íslandi eru til slíkir menn og skemmtilegastur sennilega sá sem frægur varð af mikilli ritsmíð sinni um efnahagsmál í Asíu. Þar hefðu nefnilega hagfræðingar í háskólunum fengið öll völd í efnahagsmálum og væri það eitthvað annað en þegar stjórnmálamenn, sem allir eru spilltir nema Gylfi, væru að skipta sér af því sem þeim kæmi ekki við. Skömmu síðar skall á mesta efnahagskreppa sem Asíumenn hafa kynnst. En svona sérfræðingar birtast nú hver af öðrum um hinn vestræna heim, mæta í sjónvarpsviðtöl og segja hreyknir: Þarna sjáiði, það kom úlfur.