Þ
![]() |
Alistair Darling og Gordon Brown. |
að var við hæfi að það væri gamall marxisti sem ýtti síðasta íslenska einkabankanum fram af bjargbrúninni. Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands var liðsmaður International Marxist Group sem var flokkur trotskýista í Bretlandi áður en hann gekk til liðs við Verkamannaflokkinn.
Í fyrradag hvatti hann í raun breska sparifjáreigendur til að gera áhlaup á íslenska banka þar í landi, nokkuð sem var það síðasta sem þeir þurftu á að halda. Hann gaf engin grið í yfirlýsingum sínum heldur laug því einfaldlega í breska fjölmiðla að íslensk stjórnvöld hefðu hlaupist frá skyldum sínum gagnvart sparifjáreigendum í Bretlandi. Um leið var breska fjármálaeftirlitinu sigað á verðmætustu eignir íslenskra banka í Bretlandi. Þó höfðu íslensk stjórnvöld í engu vanefnt þær skuldbindingar sem lög og reglur kveða á um í þessu sambandi.
Með lögum á mánudag veitti Alþingi sparifjáreigendum á Íslandi hins vegar aukna vernd á kostnað skattgreiðenda. Með lögunum var ekki dregið úr þeirri vernd sem innistæður í íslenskum bönkum í Bretlandi njóta. Það kann engu að síður að hafa hleypt illu blóði í Breta að íslensk stjórnvöld hugsuðu fyrir og síðast um hagsmuni íslenskra sparifjáreigenda. Ef það er tilfellið urðu lögin sem áttu að vernda íslenskan sparnað til þess að restin af honum fauk út um gluggann. Ef þessi lög hefðu ekki verið sett hefðu Bretar ekkert haft í höndunum um að íslensk stjórnvöld ætluðu að meðhöndla breska og íslenska sparifjáreigendur í íslenskum bönkum á ólíkan hátt.
Aðgerðir breskra stjórnvalda á þriðjudaginn bera þess öll merki að þau hafi viljað sýna breskum sparifjáreigendum og sveitarstjórnarmönnum að þau væru ótvírætt að gera eitthvað til að verja hagsmuni þeirra. Framkoma Darlings og Gordons Browns í fjölmiðlum síðustu daga bendir eindregið til að þeir hafi fyrst og síðast viljað gera sig breiða á þeim vettvangi til að sýnast nú sæmilegir menn í einhverju máli en á það hefur sárlega skort á undanförnum misserum.
Á blaðamannafundi forsætisráðherra í gær var Morgunblaðið með tvo fulltrúa enda stærsti banki landsins kominn í þrot og íslensk stjórnvöld sökuð um það af breskum ráðherrum að nota klippurnar á skuldahala íslenskra útrásarvíkinga. Annar fulltrúi Morgunblaðsins spurði forsætisráðherra hvort ekki yrði gætt jafnréttissjónarmiða við endurskipulagningu bankanna og hinn lét ekki heldur tíðindi dagsins trufla sig frá þráhyggjunni og spurði hvort ekki ætti að skipta um einn af þremur bankastjórum seðlabankans. Kjarni málsins.
ÞÞ að vantar ekki að svonefndir útrásarmenn fá það óþvegið um þessar mundir. Vissulega liggja þeir vel við höggi. Óvíst er að nokkur vildi vera í þeirra sporum. Egill Helgason sjónvarpsmaður er í hópi þeirra sem fara um vefinn með heykvíslina. Egill fagnaði því hins vegar á sínum tíma að þessir útrásarmenn tækju við helstu fyrirtækjum landsins af „kolkrabbanum“. Sérstaklega fangaði hann því að Eimskipafélagið væri komið í hendur betri manna en áður.
Egill bar „kolkrabbann“ og útrásarmennina saman fyrir rúmum þremur árum:
En þetta voru fínir menn, fínir með sig og nánast ósnertanlegir á þeim tíma; vanir því að allir bukkuðu sig og beygðu fyrir þeim. Aldrei töldu þeir sig þurfa að flenna sig í fjölmiðlum. Almúginn fór í bíltúra á Ægissíðuna til að reyna að sjá glitta í veislurnar inn um gluggana hjá þeim. Auðmenn nútímans standa okkur talsvert nær, þeir eru sífellt í fjölmiðlunum, ímyndin er þeim afskaplega dýrmæt. Hér er líka komin upp hlutabréfamarkaður og aðhald fjölmiðlanna er vísast nokkuð kröftugra. |
Ja sei, sei þeir héldu veislur heima hjá sér á Ægisíðunni þessir kolkrabbamenn. Og Egill telur að útrásarmennirnir hafi staðið okkur nær því við fengum að sjá myndir af þeim í Séð og heyrt stíga um borð í þoturnar sínar á leið til fundar með Tom Jones, Al Gore og Martha Stewart.
Þegar menn leita að mönnum í gapastokkinn hér á landi vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu mætti kannski hafa það í huga að það tóku flestir landsmenn þátt í útrásarglaumnum. Hver með sínum hætti, eins og nýju einbýlishúsin, bílarnir, sumarbústaðirnir, hjólhýsin, utanferðirnar og flatskjáirnir báru með sér. Ekki er vitað til þess að nokkur maður hafi afþakkað þátttöku í veislunni og Egill hefur sjálfur sagt frá því að hann hafi sóst eftir vinnu hjá útrásarfyrirtækjunum.