Fimmtudagur 9. október 2008

283. tbl. 12. árg.

J afnt og þétt skýrist það mönnum hvílíkur pilsfaldakapítalismi fjármálastarfsemi í heiminum er. Ríkisstjórnir keppast nú við að yfirbjóða hver aðra í björgun banka. Keppnin er ekki síður hörð í því að leggja skattgreiðendur að veði fyrir hvers kyns innistæðum í fjármálafyrirtækjum.

Í gær tilkynnti viðskiptaráðherra að ríkisstjórnin væri að athuga hvernig koma mætti til móts við eigendur bréfa í peningamarkaðssjóðum þeirra banka sem komnir eru í þrot. Ekki svo að skilja að ríkisstjórnin muni leggja nokkuð fram í þeim efnum heldur verður skattgreiðendum sendur reikningurinn.

Peningamarkaðssjóðir festa fé í skuldabréfum og víxlum fyrirtækja og stofnana og engum hefur fram til þessa dottið í hug að slíkir pappírar séu tryggðir í bak og fyrir af ríkinu.

Það er einhver meiriháttar kerfisvilla á ferðinni þegar þeir sem leggja fé í fjármálafyrirtæki eru með ríkisábyrgð en ekki þeir sem leggja fé í annan atvinnurekstur. Hvar er viðskiptaráðherra þegar verktaki eða verslun verður gjaldþrota og eigendur víxla og skuldabréfa sitja eftir með sárt ennið?

Það er alger forsenda fyrir því að markaðurinn virki að menn taki afleiðingum gjörða sinna.

Í ávarpi sínu til þjóðarinnar á mánudaginn sagði forsætisráðherra að íslenska ríkið hvorki gæti né myndi bjarga íslensku bönkunum með því að borga skuldir þeirra. Íslensk stjórnvöld myndu hins vegar verja innlend innlán og séreignasparnað. Með öðrum orðum: Íslensk stjórnvöld væru reiðubúin til að borga innlendar en ekki erlendar skuldir bankanna.

Ríkisstjórnin sendi jafnframt frá sér yfirlýsingu þar sem hún kvaðst árétta „að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu.“ Yfirlýsingin var einnig birt á ensku.

Talað var við einn þriggja bankastjóra seðlabankans í Kastljósi Ríkissjónvarpsins daginn eftir. Hann sagði að íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið að ábyrgjast innlendar en ekki erlendar skuldir bankanna. Innlán væru örugg en ekki aðrar skuldir.

En nú bar svo við að fjölmiðlamenn og álitsgjafar supu hveljur. Skyndilega var alveg bannað að segja nákvæmlega þetta. Ummæli í þessa veru myndu alveg ganga frá bönkunum, orðspori Íslands og hver veit hverju.

En enginn hafði áhyggjur af neinu þegar forsætisráðherra lýðveldisins sagði þetta sama, í fullu umboði ríkisstjórnarinnar. En hvað annað eiga mennirnir að segja? Vilja menn kannski að þeir segi að íslenska ríkið ábyrgist erlendar skuldir bankanna? Það er annað hvort það, eða þeir verða að segja að ríkið ábyrgist þær ekki. Og ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að erlendar skuldir bankanna yrðu ekki greiddar af íslenskum skattgreiðendum. Það getur vel verið að sú ákvörðun mælist ekki vel fyrir meðal erlendra lánadrottna og í henni felist ekki mikið jafnræði, en ríkisstjórnin tók þá ákvörðun og frá henni var skýrt.