Föstudagur 3. október 2008

277. tbl. 12. árg.
Ef þið hafnið evrunni munið þið þurfa að kjósa um hana aftur innan fárra ára. Viljið þið virkilega þurfa að kjósa um hana tvisvar? Lítið til Írlands. Írar greiddu atkvæði tvisvar [um Nice-samninginn] vegna þess að þeir fengu ranga niðurstöðu í fyrra skiptið.
-Graham Watson, leiðtogi frjálslyndra á Evrópusambandsþinginu, leiðbeinir Svíum hvernig þeir eigi að kjósa í aðdraganda þjóðarakvæðagreiðslunnar um evruna í Svíþjóð 2003

Þ að hefur lengi verið vinsælt að velta fyrir sér hvað hefði gerst ef hinir og þessir atburðir hefðu ekki átt sér stað og þá ef til vill eitthvað allt annað gerst í staðinn. Ekki er ólíklegt að mannskepnan hafi stundað slíka hugarleikfimi meira eða minna alla sína tíð. Og ólíklega hefur áhuginn á slíku minnkað í seinni tíð. Þannig birtist til að mynda grein í Morgunblaðinu 11. september sl. eftir Gunnar Hólmstein Ársælsson, stjórnmálafræðing og stjórnarmann í Evrópusamtökunum, í tilefni af því að fimm ár voru þá liðin frá morði á sænska stjórnmálamanninum Önnu Lindt. Í greininni setur Gunnar fram þá kenningu að morðið hafi hugsanlega haft úrslitaáhrif á það að sænskir kjósendur höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæði þremur dögum síðar og ef ekki hefði komið til þess hefði niðurstaðan kannski orðið önnur.

Þann stutta tíma sem leið frá morðinu á Önnu Lindt og fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni veltu einmitt þvert á móti flestir því fyrir sér hvort það kynni að verða til þess að fleiri greiddu atkvæði með evrunni en ella af samúð við Lindt sem var mikill talsmaður þess að taka hana upp sem gjaldmiðil Svía. Margir vildu af þeim sökum fresta þjóðaratkvæðinu en Göran Persson, þáverandi forsætisráðherra Svía og ekki minni áhugamaður um evruna, tók þá ákvörðun að haldið yrði áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Það fór þó svo að um 56% þeirra Svía sem atkvæði greiddu afþökkuðu evruna en 42% vildu fá hana í stað sænsku krónunnar. Munurinn á andstæðum fylkingum var 14%. Gunnar telur að lítill munur hafi verið á fylkingunum samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana síðustu dagana fyrir þjóðaratkvæðið en staðreyndin er þó sú að þær voru mjög misvísandi og voru í það minnsta ekki færri og frekar fleiri sem bentu til stórsigurs þeirra sem ekki vildu evruna en sem bentu til þess að fylkingarnar væru að dragast saman. Og það áður en morðið var framið.

Þau fimm ár sem liðin eru síðan sænskir kjósendur höfnuðu evrunni hefur haldist stöðugur meirihluti gegn því að taka hana upp. Sænsk stjórnvöld hafa viðurkennt opinberlega að það hafi alls ekki skaðað Svía efnahagslega að halda sænsku krónunni. Ekki er heldur hægt að segja að þeim hafi vegnað verr en nágrönnum þeirra sem nota evrur. Á síðustu metrunum fyrir þjóðaratkvæðið 2003 hótaði Persson Svíum öllu illu í efnahagsmálum ef þeir höfnuðu evrunni. Þegar blaðamenn spurðu hann að því ári síðar hvers vegna dómsdagsspár hans hefðu ekki ræst sagðist hann einfaldlega ekki vita það.

Og sænskum kjósendum var hótað fleiru rétt fyrir þjóðaratkvæðið og meðal annars því að ef þeir samþykktu ekki að taka upp evru þá yrði þeim einfaldlega gert að kjósa aftur um hana þar til þeir kæmust að niðurstöðu sem væri embættismönnunum í Brussel að skapi. Það er einmitt vinnuregla innan ESB að í þau skipti sem kjósendur eru hafðir með í ráðum þegar stór samrunaskref eru fyrirliggjandi þá séu þeir látnir kjósa aftur og aftur og aftur um sama málið þar til þeir láta undan og samþykkja það.