F yrir sveitarstjórnarkosningar talar Samfylkingin jafnan talsvert um „íbúalýðræði“. Nái hún völdum eftir kosningar sér hún sjaldnast ástæðu til að deila þeim með íbúunum.
Raunar er Vefþjóðviljinn reyndar ekki sérlega hlynntur svokölluðu „beinu lýðræði“ heldur telur skárra að kjörnir fulltrúar fari með flest þau mál sem hið opinbera sinnir – og ættu vitaskuld að vera sem fæst. Fyrir því eru ástæður sem oft hafa verið raktar í blaðinu og þarf ekki að gera nú. En ólíkt Vefþjóðviljanum boðar Samfylkingin íbúalýðræði á fjögurra ára fresti og því gagnlegt fyrir kjósendur að velta fyrir sér hversu lítið býr þar að baki.
Nú hefur Kristján Möller, ráðherra sveitarstjórnarmála, boðað frumvarp er þvingi fámenn sveitarfélög til sameiningar svo ekkert þeirra hafi færri íbúa en eitt þúsund. Kemur þetta til af óþolinmæði yfirvalda vegna þess að ítrekað kemur fram í kosningum að kjósendur eru almennt ekki hlynntir sameiningu sveitarfélaga. Slíkar tillögur eru iðulega felldar, en þegar þær eru samþykktar er áberandi í umræðu að fólk telur sig ekki hafa raunverulegt val; annað hvort ákveði það sjálft sameininguna eða hún verði þvinguð fram með lögum, og af tvennu illu sé skárra að geta þó valið þann sem sameinast skal.
En nú er stjórnmálamönnum íbúalýðræðisins nóg boðið og ætla nú að knýja fram með lögum þær sameiningar sem kjósendur hafa hafnað.
Og þó Vefþjóðviljinn sé almennt hlynntari fulltrúalýðræði en sífelldum kosningum, þá verður því ekki neitað að töluvert meira vit er í fólkinu sem mætir og segir nei, en kontóristunum sem vilja setja alla í sama illa rekna, skuldsetta, eyðsluglaða og síkvartandi kassann.