Því miður sýnir launakönnunin að launamunur kynjanna er viðvarandi og vaxandi vandamál hjá hinu opinbera og lítur SFR það mjög alvarlegum augum. Miðað við félagsmenn í fullu starfi voru meðalheildarlaun félagsmanna 304.000 kr. á mánuði. Meðalheildarlaun karla voru 376.081 kr. og meðalheildarlaun kvenna 274.417 kr. Konur höfðu því samkvæmt launakönnuninni um 27% lægri heildarlaun er karlar. En með því er ekki öll sagan sögð. Í heildarlaunum koma fram launaþættir sem skýra að hluta til hærri heildarlaun karla. Skýringaþættirnir sem tekið er tillit til eru aldur, vinnutími (fjöldi vinnustunda á viku), starfsaldur, starfsstétt, menntun og vaktaálag. Til að fá rétta mynd af því hver raunverulegur launamunur er þarf því að leiðrétta samanburðinn fyrir þessum þáttum. Þegar það hefur verið gert stendur eftir óútskýrður launamunur upp á 17,2%, en var árið 2007 14,3%. Þetta er 2,9% aukning á milli ára. |
– Úr frétt á vef SFR 11. september 2008. |
F yrir átta árum setti Alþingi ný lög um foreldra- og fæðingarorlof. Með lögunum var farið nýjar leiðir í félagslegri aðstoð við fullfrískt – eða öllu heldur fullríkt – fólk. Þess munu dæmi að á fyrstu árum hinna nýju laga hafi auðmenn fengið hátt í tvær milljónir króna á mánuði í félagslega aðstoð vegna barneigna. Það þótti hins vegar afar mikilvægt meðal fylgismanna laganna að ekkert hámark væri á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði því þá myndu hátekjumennirnir ekki nenna að stumra yfir nýfæddum börnum sínum. Aðeins einn þingmaður greiddi þessari ofrausn ekki atkvæði sitt, Einar Oddur Kristjánsson. Flokksbræður hans gerðu það hins vegar allir sem einn þótt þeir segist stundum hafa áhyggjur af ríkisútgjöldunum. Sömuleiðis kepptust þingmenn jafnaðarmannaflokkanna við að rétta upp hönd þegar Alþingi samþykkti hæstu félagslegu bætur í Íslandssögunni – til hátekjumannanna.
Kostnaður af þessu var hins vegar svo geggjaður og langt umfram allar áætlanir að sett var þak á greiðslurnar nokkrum árum síðar.
En það voru tvær megin ástæður fyrir því að þessi lög voru sett. Annars vegar má segja að lögin séu dæmigerð fyrir það hvernig velferðarkerfi hins opinbera verður ætíð misnotað af þeim sem betur mega sín. Þessi lög eru samin af langskólavistuðu hátekjufólki fyrir hátekjufólk. Hins vegar áttu lögin að gera kraftaverk í jafnréttismálum og „útrýma“ meintum kynbundnum launamun.
Vefþjóðviljinn hefur svo sem oft sagt skoðun sína á þeim mælingum sem notaðar eru til að fá það út að konur séu snuðaðar um 5 til 20% af „réttum“ launum sínum. Við þær er margt að athuga. En þeir sem studdu fæðingarorlofslögin árið 2000 trúa og treysta þessum könnunum og þær voru mikilvæg röksemd fyrir lögunum. Nú hafa þessar kannanir sýnt það sjö ár í röð að lögin hafa engin áhrif haft á kynbundinn launamun. Engin.