H vað er það sem mannskepnan hefur fram yfir önnur dýr sem ráfa um jörðina? Hvernig fór þetta dýr að því að drottna yfir öðrum dýrum merkurinnar og að byggja upp samfélag sem tekur stöðugum, stórstígum framförum sem ekki sér fyrir endann á? Jú, þessi fremur veikburða vera mun víst hafa óvenju stóran heila, þróunarfræðilega séð. Það hefur væntanlega hjálpað til. Svo trúir stór hluti mannkyns að þeirra tegund njóti sérstakrar velvildar almættis sem hafi gert henni kleift að ráðskast með sköpunarverk þess nánast að geðþótta. Það spillir varla fyrir.
En það er eitthvað við mannfólkið sem drífur það áfram. Eitthvert eirðarleysi, nýjungagirni, forvitni og löngun til að bæta sérhvað í eigin umhverfi og lífi. Einhver standandi óþolinmæði gagnvart ríkjandi ástandi og banni við breytingum. Viðvarandi efi um að ekki megi gera hlutina betur. Saga mannkyns er vörðuð endurbótum.
Maðurinn er frjálslynd vera, í elsta og besta skilningi þess orðs. Honum vegnar best þegar frumkvæði hans og kraftur fær notið sín með sem minnstum kvöðum eða afskiptum. Hugmyndaauðgi og sköpunarkraftur mannsins eru aðdáunarverð. En að sama skapi er hann viðkvæmur fyrir því að ráðskast sé með hann. Slíkar aðstæður eru til þess fallnar að drepa mannsandann í dróma, draga úr mönnum líf og halda þeim föngnum.
Fátækt er eitt slíkt ástand sem haldið getur mönnum í heljargreipum. Úr þeim getur verið afar erfitt að sleppa og jafnvel getur það virst ómögulegt. Til dæmis eru tækifæri þess mikla fjölda manna sem búa við algera örbirgð víða í heiminum gjarnan bæði fá og vandfundin.
En það er einmitt þær aðstæður þar sem fátæktin er hvað sárust sem eru hvað vandmeðfarnastar. Þar er gjarnan athygli heimsbyggðarinnar hvað mest, þótt frekar lítil sé annars. Þangað eru oft fluttar háar fjárhæðir og mikið magn hjálpargagna, sem jafnan kemur í góðar þarfir við að lina þrautir þeirra sem við þessar aðstæður búa og beinlínis bjarga lífi þeirra sem svelta heilu hungri.
Tilburðir betur megandi íbúa heimsins til að aðstoða þá sem búa við raunverulega fátækt eru hins vegar ekki bundnir við matargjafir og neyðaraðstoð. Að stærstum hluta er þar um að ræða það sem kallað er þróunaraðstoð. Rétt eins og aðrir slíkir tilburðir er hún oft veitt af góðmennsku, samúð og öðrum góðum hvötum. Nú eða þá af sektarkennd eða annars konar friðþægingu. Þá á hið sama við um þessi afskipti og önnur, að stutt er í þá að því er virðist eðlislægu hvöt manna að reyna að hafa vit fyrir öðrum mönnum. Því felst þróunaraðstoð gjarnan í því að sá sem hana veitir reynir að innleiða hjá þiggjendum hennar starfsemi og vinnuhætti sem honum hugnast. Sem hann telur að þiggjendurnir þurfi á að halda. Sem honum finnst að þeir ættu að taka upp. Aðstoð af þessu tagi er oft þessu marki brennd, hvort sem hún kemur frá opinberum aðilum, fyrirtækjum eða öðrum einkaaðilum. Sem væri svo sem gott og blessað, ef afleiðingarnar myndu ekki skilja við þiggjendurna í verri stöðu en þeir voru í áður.
Paul Polak heitir maður sem unnið hefur með fátæku fólki í Bangladesh, Indlandi, Eþíópíu, Zimbabwe og fleiri ríkjum síðan snemma á níunda áratug síðustu aldar. Tilgangur þessara starfa hans hefur verið að hjálpa fólki að komast úr fátækt og að ná fjárhagslegu sjálfstæði. Í nýlegri bók, Out of Poverty – What Works When Traditional Approaches Fail, þar sem hann lýsir reynslu sinni, greinir hann meðal annars frá því hvernig það hafi smám saman runnið upp fyrir sér hversu viðkvæm tilvera fátæks fólks getur verið fyrir skyndilegri utanaðkomandi „aðstoð“. Hvernig tilbúnar „lausnir“, sem felast ekki í því að fólk eigi sjálft frumkvæði að eigin björg og hefji sig upp af eigin myndugleik, séu dæmdar til að mistakast.
Paul lýsir þeirri skoðun sinni að verji fólk ekki eigin fé í að bjarga sjálfu sér, sama hve það fé sé af skornum skammti, þá séu slíkar aðgerðir dæmdar til að mistakast. Allt velti á því að fólk finni sjálft hjá sér hvöt til bjargráða. Ekkert geti komið í stað innsýnar fólks í eigin aðstæður og hyggjuvits þess. Ekki fátækrasérfræðingar sem sendir séu frá fjarlægum löndum, ekki fyrirtæki í leit að betri ímynd og allra síst erlendar ríkisstjórnir sem ausi fé í viðkvæman efnahag fátækra ríkja og svæða til að ná upp í sín eigin markmið um veittar fjárhæðir án nokkurs skilnings eða þekkingar á aðstæðum þar.
Stjórnmálamönnum, ekki síst þeim er aðhyllast forsjárhyggju, er hætt við að gleyma því hve frumkvæði og sjálfsbjargarviðleitni einstaklinga eru mikilvæg, en geta jafnframt verið viðkvæm fyrir utanaðkomandi afskiptum.