Félagsmálaráðherra segir það vonbrigði hve litlu margvíslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á fasteignamarkaði haf skilað. Mjög lítil velta er enn á markaðnum. Ráðherra harmar hve lítið bankarnir láni. |
– Hádegisfréttir RÚV 2. september 2008. |
Þ að hafa víst ýmsir farið flatt á verðbréfakaupum fyrir lánsfé að undanförnu. En lánsfé kemur víðar við sögu. Þeir sem keyptu húsnæði fyrir 90% lán fyrir ári eiga nú minna en ekkert í íbúðinni sinni. 27 milljóna króna lán sem tekið var til kaupa á 30 milljóna króna íbúð fyrir ári stendur nú í 32 milljónum, hafi menn notið bestu vaxtakjara og ekki verið með lán í erlendri mynt. Húsnæðisbólan er sprungin hér á landi eins, rétt eins og víðast annars staðar og rétt eins og verðbréfabólan. Fjárfestar hafa verið dregnir á asnaeyrunum af ríkisseðlabönkum heimsins sem dældu ódýru fé út á markaði.
Þrátt fyrir þessa reynslu telur félagsmálaráðherra að hið opinbera eigi áfram að hlutast til um fjárfestingar fólks. Jóhanna Sigurðardóttir er alveg miður sín yfir því að almenningur haldi að sér höndum í 15% landinu; verðbólgu og vöxtum. Hún „harmar“ hvorki meira né minna að fjármálastofnanir sýni varkárni um þessar mundir og etji fólki ekki út í húsnæðiskaup við slíkar aðstæður.
Ein aðgerða ríkisstjórnarinnar á fasteignamarkaði var að „afnema stimpilgjöld“. Það var hins vegar gert með því að búa til flóknar reglur um málið og skilyrða niðurfellingu stimpilsgjaldsins í stað þess að lækka bara skattinn yfir línuna ef menn treystu sér ekki til að fella hann niður í einu lagi. Erfingi milljarða sem kaupir sér sitt fyrsta einbýlishús fyrir arfinn fær stimpilgjöldin felld niður en almennur launþegi sem á skuldsetta tveggja herbergja íbúð og ætlar að stækka upp í þrjú herbergi greiðir full stimpilgjöld af kaupunum. Félagsmálaráðherrann hugsar jú fyrst og síðast um þá sem minnst mega sín.