A uðunn Arnórsson gerir því skóna í leiðara Fréttablaðsins í gær að þeir sem búist við stórkostlegum breytingum á stjórnmálum í Bandaríkjunum takist Barak Obama að verða forseti verði fyrir vonbrigðum.
Í nýlegri ferð forsetaframbjóðanda demókrata, Baracks Obama, um Mið-Austurlönd og Evrópu kom glögglega í ljós hve gríðarlegar væntingar heimsbyggðin bindur við forsetaskipti í voldugasta ríki heims. Í Berlín fylltu 200.000 manns breiðstrætin í kring um torgið þar sem frambjóðandinn hélt tölu. Það lá við að það gilti einu hvað hann segði, aðsóknin endurspeglaði þær miklu væntingar sem Þjóðverjar binda við manninn sem þeir vona að verði arftaki George W. Bush í Hvíta húsinu. Reyndar sýna kannanir að ef Þjóðverjar hefðu atkvæðisrétt fengi Obama þrjú af hverjum fjórum atkvæðum þeirra. Meðal Frakka yrði þetta hlutfall enn hærra. |
En þótt væntingarnar um breytingar séu miklar mun sumt ekki breytast að ráði. „Til dæmis mun „baráttan gegn hryðjuverkum“ halda áfram, sem og krafan um að bandamenn Bandaríkjanna leggi þeim lið í þeirri baráttu“ segir Auðunn.
Það er nokkuð til í þessu. Þótt jafnan sé talað um forseta Bandaríkjanna sem valdamesta mann í heimi þá eru valdi hans mikil takmörk sett innan Bandaríkjanna. Það gleymist jafnan að valdi forsetans eru sett ströng mörk af þinginu og ekki síður vegna þess hvernig valdi er dreift til hinna 50 ríkja Bandaríkjanna. Forsetar Bandaríkjanna hafa því ekki nema ákveðið svigrúm til byltinga.
Það væri kannski fróðlegt að sjá Obama verða forseta og breyta engu frá stefnu núverandi forseta nema stílnum. Hann mun samt dáður af evrópsku pressunni. Þeir sem eru þegar farnir að dýrka mann sem engin reynsla er af hlýtur að standa á sama um hvað hann gerir í embætti.