Helgarsprokið 10. ágúst 2008

223. tbl. 12. árg.
Það er hins vegar líka óskynsamlegt af okkur Íslendingum að ætla að kasta frá okkur ávinningi sem við getum fengið varðandi okkar útflutning með því að lækka einhliða gjöld eða hömlur á innflutningi. Þetta byggist allt á því að menn leggja fram eitthvað og fá svo í staðinn.
– Geir H. Haarde forsætisráðherra í tíufréttum Sjónvarps mánudaginn 4. ágúst sl.í tilefni af því að hinar svonefndu Doha viðræður um aukið viðskiptafrelsi sigldu í strand.

Í vor var staddur hér á landi breskur hagfræðingur sem lýsti framangreindu viðhorfi forsætisráðherra nokkurn veginn svo: Ímyndið ykkur mann sem stendur í deilum, bregður höndum hálsinn og hótar því að kyrkja sjálfan sig , verði ekki gengið að hans kröfum.

Hver maður hlýtur að sjá hversu klókt þetta er hjá forsætisráðherra. Að hamla innflutningi landbúnaðarafurða, leggja á erlendu vörurnar veruleg gjöld og valda þannig íslenskum heimilum talsverðum búsifjum. Viðhalda síðan með þessum aðgerðum, ásamt niðurgreiðslum og styrkjum af skattfé, óhagkvæmni í heilli atvinnugrein. Sá maður hlyti að vera galinn sem legði á ráðin um að hætt yrði að skaða íslensk heimili og atvinnulíf með þessum hætti. Það er ekki hægt að bæta hag landsmanna og fella einhliða niður tolla og ryðja burtu hindrunum í innflutningi bara vegna þess að stóru ríkin í heiminum gátu ekki komið sér saman um aukið viðskiptafrelsi í Doha-viðræðunum.

Stjórnvöld gæfu með því upp hina sterku vígstöðu í samningum í framtíðinni um niðurfellingu tolla og afnám viðskiptahindrana milli landa.Þau gætu þá ekki lengur hótað því að beita Íslendinga hörðu. Hverjum dytti í hug að taka af þeim annað eins samningstæki, að geta hótað áfram fábreytni í vöruúrvali, svimandi verðlagi og sóun á almannafé?
Hverjum dytti þetta í hug fyrir utan þessa þrjá hagfræðinga sem skrifuðu skýrslu fyrir Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE) í lok ársins 2005 þar sem lagðar voru til breytingar á þessari afstöðu Íslands. Í grein sem þeir rituðu í Morgunblaðið 14. desember 2005 í tilefni af útgáfu skýrslunnar sagði:

Ísland ætti því að stefna að því að aflétta viðskiptahindrunum eins fljótt og unnt er án tillits til hvort aðrar þjóðir geri slíkt hið sama. Slík stefna myndi stuðla að auknum hagvexti og þjóðfélagslegri velferð til langs tíma litið og stuðla að því að íslenskt hagkerfi geti blómgast enn frekar fyrir atbeina þekkingar og sérhæfingar – til hagsbótar öllum þorra manna – jafnframt því að leggja lóð á vogarskálina í þeirri viðleitni að styðja þróunarlöndin til sjálfshjálpar.

Einn þessara hagfræðinga var Tryggvi Þór Herbertsson þáverandi prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður hagfræðistofnunar skólans. Sjálfsagt eru fáir hissa á því að hann starfi ekki lengur í háskólanum. Hins vegar ráku vafalaust margir upp stór augu þegar þeir heyrðu af því að hann hefði verið ráðinn efnahagsráðgjafi og tekið formlega til starfa sem slíkur daginn eftir að forsætisráðherra kvað upp úr um það hvað væri skynsamlegt í svona samningum við útlendinga. Hver myndi þiggja ráð svona sérfræðinga?

Auðvitað voru mikil vonbrigði að ekki tókst samkomulag í Doha. Eins og forsætisráðherra sagði í fyrrnefndu viðtali við Sjónvarpið:

Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir alla þá sem að vilja koma hér á auknu viðskiptafrelsi í heiminum. Þetta eru sérstök vonbrigði fyrir þá sem hafa viljað nýta viðskiptafrelsi til þess að bæta hag þróunarlandanna sem að hefðu fengið út úr þessum pakka gríðarlega mikil verðmæti á næstu árum.

En það þýðir ekkert að hengja haus. Fólk kastar ekki frá sér svona samningsstöðu og breytir því sem það getur breytt, bara til að auka viðskiptafrelsi, bæta hag íslenskra heimila, koma skikki á landbúnaðarkerfið og leggja lóð á vogarskálar þess að þróunarlöndin brjótist úr fátæktinni. Það væri bara óskynsamlegt…