A lmáttugur, það er verið að bjóða almannaþjónustuna út. Einhvern veginn á þessa leið er rökstuðningur Svandísar Svavarsdóttur borgarfulltrúa vinstri grænna gegn því að Strætó bs. leiti hagstæðustu tilboða í akstur strætisvagna. Það er líka eitthvað sáluhjálparmál fyrir vinstri græna að strætóbílstjórarnir séu opinberir starfsmenn byggðasamlags en ekki starfsmenn einkafyrirtækja. „Það ber allt að sama brunni hjá meirihlutanum í Reykjavík og hér er verið að einkavæða almannaþjónustu. Þá eru loforð um samráð við starfsfólk að engu höfð, en því hafði verið lofað að ekki yrði gengið til breytinga nema í samráði við það,“ sagði Svandís við Fréttablaðið í gær.
Hvaða fyrirtæki eru það annars sem bjóða ekki „almannaþjónustu“? Flest einkafyrirtæki veita öllum sem leita til þeirra þjónustu. Ríkisfyrirtæki eru hins vegar fræg fyrir þrennt; að setja alls kyns skilyrði fyrir þjónustu, veita mjög takmarkaða þjónustu og biðlista. Það var margra mánaða og ára bið eftir heyrnartækjum þar til fyrir nokkrum árum að einkafyrirtæki hösluðu sér völl á því sviði. Fram að því hafði ríkið veitt þá „almannaþjónustu“ við heyrnarskerta að mega bíða mánuðum saman eftir greiningu og svo mánuðum saman eftir tækjum eða öllu heldur hina eina sanna ríkisheyrnartæki.
Með útboði á þjónustu Strætós leitast stjórn byggðasamlagsins við að draga úr gríðarlegum fjárútlátum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu vegna samlagsins. Takist það má bæta þjónustu annars staðar fyrir féð sem sparast eða lækka skatta á íbúa sveitarfélaganna. En þetta sér Svandís Svavarsdóttir ekki eða telur algert smámál í samanburði við sérhagsmunina „samráð við starfsfólk“.
Í fréttum á dögunum var einnig sagt frá því að Garðabær hefði ekki áhuga á að taka þátt í verkefninu „ókeypis í strætó“. Þar kom jafnframt fram að „ókeypis í strætó“ kostaði nokkur hundruð milljónir á ári.