Sósíalismi merki félagslegt réttlæti og jafnrétti, þ.e. jöfn tækifæri og jöfn réttindi, en ekki jafnar tekjur. |
– Raul Castro, Fidelbróðir, í ræðu í kúbanska þinginu 11. júlí 2008. |
Þ
Úr fjölskyldualbúminu. Raul er vinstra megin við miðju, þrátt fyrir allt. |
að þótti nokkrum tíðindum sæta að Raul Castro, sem tók við stjórn einræðisins þar í landi af Fidel Castro fyrir fáeinum misserum, strokaði í nýlegri ræðu sinni yfir nær 50 ára starf stóra bróður (!) með því að fullyrða að það sé ekkert sameiginlegt með jöfnum tekjum og sósíalisma. Þetta minnir óneitanlega á þegar ónefndur kommúnistaleiðtogi í Kína fleygði einni helstu kennisetningu kommúnismans út hafsauga, með vísan í að litarhaft katta hefði í raun ekkert með veiðihæfileika þeirra að gera.
Í um það bil hálfa öld hafði Fidel verið að rembast eins og rjúpan við staurinn við að koma á þjóðfélagi launajafnaðar. Allan þann tíma – og satt að segja löngu áður – var ljóst að besta leiðin til tekjujöfnunar er að gera alla jafn sárfátæka. Í þeim heimshlutum þar sem velmegun hefur ríkt á sama tíma og þeir Castrobræður hafa deilt og drottnað á Kúbu, er oftar en ekki verulegur munur á tekjum fólks. Winston gamli Churchill lýsti þessu svo, að gallinn við kapítalismann væri að hann dreifði gæðunum ójafnt, en gallinn við sósíalismann væri hvað hann dreifði ómenguðum ömurleikanum jafnt yfir þjóðfélagið. Og síðarnefndi ókosturinn er töluvert verri, meira að segja sumir úr Castro fjölskyldunni eru því sammála nú til dags.
Fidel varð þó nokkuð ágengt, því hann náði að búa til sárafátækt tekjujöfnunarríki. Um þessar mundir eru meðalmánaðarlaun á Kúbu rétt tæplega tuttugu bandaríkjadalir. $20. Tæplega einn dalur fyrir hvern virkan dag mánaðarins. Svo virðist sem þetta afrek Fidels veki takmarkað aðdáun litla bróður hans, þrátt fyrir að opinská gagnrýni lýðist ekki frekar en fyrri daginn. Í sömu ræðu og vitnað er í hér að ofan talar hann einnig um kúgun hins lata verkamanns á þeim duglega. Hann talar ekki undir rós. Þegar allir fá sömu laun án nokkurs tillits til hæfileika, framlags og iðni má vera ljóst að þeir verkamenn sem leggja sig fram eru augljóslega ekki að fá neina umbun fyrir vel unnin störf. Hlutfallslega hafa þeir lötu fengið meira úr býtum þar eð vinnuframlag þeirra var mun minna eða lakara. Það þarf reyndar ekki að fara til Kúbu til að sjá þessa tegund kúgunar; virkilega hæfileikaríkir, dugmiklir og góðir kennarar hér á Fróni hljóta sumir hverjir að bölva í hljóði. Þeir vita mætavel, að sumir kollegar þeirra, sem einhverra hluta vegna eru orðnir áhugalausir, metnaðarlausir og staðnaðir í starfi (og hafa sumir kannski alltaf verið það) fá samt sem áður nokkurn veginn sömu laun. Þetta er í hnotskurn hin íslenska jöfn-laun-fyrir-sömu-vinnu heimspekin.
Það segir reyndar ekki alla söguna að meðalmánaðarlaun kúbverskra launamanna nái ekki tuttugu dölum á mánuði, því menntun og heilbrigðisþjónusta er greidd af ríkinu, ásamt ýmsu öðru. Á Kúbu er talið að hið opinbera ráði yfir ríflega 90% af hagkerfi eyjunnar. Kúba er því svona eins og fangelsi með ágætis bókasafn og sjúkrastofu. Yfirfangavarðaskiptin vekja athygli vegna þess að ungi maðurinn, hinn 77 ára gamli Raul Castro, hefur af náð sinni heimilað bændaföngunum að kaupa og eiga eigin landbúnaðartæki; allir fangarnir mega núna kaupa og eiga rafmagnstæki á borð við DVD spilara, gemsa og tölvur, þó svo það megi nú reyndar ekki tengja tölvurnar við netið. Önnur fangelsi, líkt og í Norður-Kóreu, hljóta að fylgjast spennt með því hvernig til tekst.
En menn velta fyrir sér hvað verður síðar meir. Þær breytingar sem Raul hefur staðið fyrir eru ágætar jafnlangt og þær ná og ræðurnar hans eru víst umtalsvert styttri. En þær breyta því ekki að Kúba er enn þá undir einræðisstjórn og hefur verið allt frá því að Castroklanið tók völdin. Þessar breytingar einar sér munu lítt draga úr því vinsæla sporti meðal margra landsmanna að kjósa með kænunum og árunum og taka kúrsinn í hánorður, beint í faðm Ameríku. Stærsta spurningin er hvort Raul muni nokkurn tímann leysa úr haldi allan þann fjölda fanga sem sitja inni vegna pólitískra skoðana sinna og heimila öðrum stjórnmálaöflum að bjóða fram í lýðræðislegum kosningum. Yfirleitt virðast Kúbusérfræðingar svartsýnir á það. En þrátt fyrir slæma heilsu stóra bróður situr Raul í skugga hans og fólk verður bara að bíða og sjá hvað kann að gerast eftir daga Fidels. Vonandi eitthvað róttækara en það sem Raul hefur verið að gera hingað til. Kannski er þó best að stilla væntingum mjög í hóf, þar sem það er því miður fremur fátítt að einræðisstjórnir stofni lifibrauði sínu í hættu með ábyrgðarlausum glannaskap á borð við lýðræði.