Þ að er afskaplega hæpið hjá ferðamálastjóra ríkisins að þeir landeigendur sem einhvern tímann hafa fengið einhvers konar ríkisstyrk geti ekki ráðstafað landi sínu að vild. Þessu hefur ferðamálastjórinn haldið fram um Kerið í Grímsnesi. Eigandi Kersins fékk ríkisstyrk fyrir nokkrum árum til að leggja göngustíga um svæðið og ferðamálstjóri telur að þar með geti eigandinn ekki selt eða takmarkað aðgang að svæðinu. Engum dettur í hug að heimili ferðamálastjóra standi öllum opið þótt hún hafi heldur óvænt fengið góða stöðu við ríkisjötuna hjá félaga Össuri.
Vinsælum ferðamannastöðum líkt og náttúruperlum Íslands þarf að halda við og tryggja að þær troðist ekki niður undan hinum grænu túristum. Það er sjálfsagt að kostnaður við þetta viðhald lendi á á þeim sem átroðningnum valda. Það þarf til dæmis að leggja vegi og stíga, gera bílastæði, tjaldstæði og bjóða upp á snyrtiaðstöðu.
Tal um hve ferðaþjónusta sé umhverfisvæn minnir raunar oft á boðskap um endurvinnslu. Það er eiginlega alveg horft framhjá því að þessi starfsemi krefst orku, ekki síst til flutninga. Það er aldrei tekið með reikninginn að flytja þarf hið flokkaða sorp út og suður til endurvinnslu og sjaldan er því haldið til haga hve orkufrekur ferðalangurinn er sem flýgur yfir hafið til að rúnta um Ísland á fjórhjóladrifsbíl.
Með framhaldi á þeirri fjölgun sem orðið hefur á ferðamönnum til Íslands mun vafalaust koma að því eins og víða annars staðar að ágangurinn verði svo mikill að takmarka þurfi aðgang með gjaldtöku. Ýmis viðkvæm svæði hafa takmarkað þol gagnvart trampi ferðamanna, jafnvel þótt þeir þykist vera grænir ferðalangar með því að nota sama handklæðið tvisvar á lúxushótelunum sem þeir gista á.
Slík gjaldtaka er meðal annars notuð til að dreifa álaginu. Vinsælustu dagarnir, til dæmis helgar um sumar, eru hafðir dýrastir.
Það þykir engum fráleitt að greiða fyrir áskrift að sjónvarpsrásum á borð við Discovery, sem sýna þætti um náttúruna. Enginn kippir sér upp við að greiða fyrir aðgang að dýragarði þar sem sjá má ýmis sýnishorn úr náttúrunni. Hinn almenni maður gerir það möglunarlítið. En þeir sem hafa efni á að ferðast veröldina þvera og endilanga til að berja náttúrufyrirbæri eigin augum eiga að mati ferðamálastjóra íslenska ríkisins að vera undanþegnir aðgangseyri.