V instihreyfingin-grænt framboð verður að fara að gera upp hug sinn til virkjunar í neðrihluta Þjórsár. Það eru bráðum allir tilbúnir í umræðuna en vinstrigrænir sitja bara og þumbast við eins og þetta stóra hagsmunamál þjóðarinnar komi þeim ekki við. Síðast var forstjóri Landsvirkjunar að lýsa stuðningi við virkjanirnar og sýnir það að umræðan er á fleygiferð. Jakob Björnsson fyrrverandi Orkumálastjóri skrifaði nýlega stórmerkilega grein um málið og nýleg blaðaauglýsing Landsambands álframleiðenda markar alger þáttaskil. Nú beinast allra augu að vinstrigrænum, þeir verða að fara að mynda sér skoðun á málinu.
Einhvern veginn svona hljómar sísöngur Evrópusinnanna sem ekkert hefur orðið ágengt undanfarin ár. Í síðustu alþingiskosningum, sem fram fóru í fyrra, barðist enginn flokkur fyrir aðild að Evrópusambandinu. Innan flokkanna hefur stuðningur við inngöngu ekki aukist síðan þá – þó sömu menn fari áfram með sömu þulur. Fyrir fimmtán árum voru áköfustu Evrópusinnar Sjálfstæðisflokksins þeir Sveinn Andri Sveinsson, Baldur Þórhallsson og Ólafur Þ. Stephensen. Nýjustu „þáttaskilin“ í „Evrópuumræðunni“ voru að Sveinn Andri var að skrifa Fréttablaðsgrein um málið og Staksteinar Morgunblaðsins töldu greinina mikil tíðindi daginn eftir. Ríkisútvarpið mun eflaust fljótlega ná í fræðimanninn Baldur og ræða það við hann hvort grein Sveins sýni ekki að nú sé þetta að koma.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur skýra stefnu í Evrópumálum og Geir H. Haarde formaður hans er eindreginn og skýr í afstöðu sinni, jafnt í andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið sem við upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi. Aðrir flokkar hafa ekki haggast í sinni skoðun heldur. En á Evrópufjölmiðlunum heitir það ekki afstaða nema menn vilji að Ísland renni inn í evrópska stórríkið. Þeir sem vilja að enn skuli Ísland vera frjálst og fullvalda ríki, þeir „hafa ekki tekið afstöðu“ þrátt fyrir „ört vaxandi þrýsting“.
Og þegar einhver, einstaklingur eða samtök, sem allir eiga að vita að hefur verið glóandi af Evrópusambandsáhuga í áratugi, skrifar hundruðustu greinina eða sendir frá sér þúsundustu ályktunina, þá dettur fréttamönnum það eitt í hug að hringja í Baldur Þórhallsson og spyrja hvort nú hafi ekki orðið vatnaskil.
Og hann heldur það nú.