Þ að fer lítið fyrir umræðum um annað en gjaldeyrismál um þessar mundir. Þeir flokkar sem voru ólíklegastir til að greiða úr þeim málum í sameiningu sitja nú saman í ríkisstjórn. Raunar er vandséð að Samfylkingin geti átt þátt í nokkurri raunhæfri lausn í þeim efnum á meðan flokkurinn sættir sig ekki við að hann er einangraður í afstöðu sinni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Blekið var til að mynda vart þornað á stjórnarsáttmálanum þegar ráðherrar Samfylkingarinnar fóru að tala þvert gegn sáttmálanum og skora á sjálfstæðismenn að gera nú upp hug sinn í „Evrópumálunum“ því hann væri gjör svo vel ekki sá sami og samfylkingarmanna. Samfylkingin virðist raunar ekki til samstarfs um nokkurt mál án þess að hengja aðild að ESB á það.
Þannig hefur lítil umræða farið fram að undanförnu um skatta- og ríkisfjármál þótt það liggi nú fyrir að hið opinbera hefur aldrei tekið stærri hluta landsframleiðslunnar til sín en á síðasta ári. Eins og Vefþjóðviljinn gat um á dögunum jafngilda þau að fyrstu 176 daga ársins séu landsmenn að vinna fyrir því sem fer til hins opinbera eða til 26. júní. Árið 2007 voru tekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu rúm 48%. Hið opinbera er bæði ríki og sveitarfélög.
„Þrátt fyrir að um hríð hafi miðað í rétta átt í þeim efnum og tekjuskattshlutfallið lækkað jafnt og þétt um nokkurra ára skeið var snúið af brautinni þegar lögfest lækkun hlutfallsins var dregin til baka fyrir tveimur árum. Sú skattahækkun var að undirlagi samtaka launafólks, fólksins sem greiðir skattana. Við hverju búast menn í íslenskum efnahagsmálum þegar samtök atvinnurekenda hvetja til aukinnar starfsemi ríkisins og samtök launafólks til skattahækkana á launamenn?“ |
Þessi 48% eru Íslandsmet og mikil vonbrigði að góðæri undanfarinnar ára skuli ekki hafa verið nýtt til að halda hinu opinbera til hlés og auka svigrúm einstaklinganna. Árið 1987 voru tekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu rúm 35% og rúm 40% árið 1997. Hið opinbera sækir því látlaust á og gildir einu þótt hagkerfið stækki ört, alltaf skulu ríki og sveitarfélög taka stærri sneið. Íþróttahallir, -stúkur og -vellir, tónlistarhús, fæðingarorlof, jarðgöng, 90% húsnæðislán og safnafaraldur kosta sitt.
Ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig vegna tónlistarhússins um mörg hundruð milljónir á ári næstu áratugina og ef spár ganga eftir um afkomu hins opinbera á næstu árum mun ríkið þurfa að taka lán fyrir þessu. Það er alveg dæmigert að á meðan einkaaðilar um allt land hægja á framkvæmdum til að mæta breyttum aðstæðum rís hið yfirdrifna tónlistarhús með hraði upp af dýrustu lóð landsins á kostnað skattgreiðenda. Það mun gefa ágæta mynd af því hverjir það voru sem töpuðu sér í góðærinu þegar tónlistarhúsið verður vígt í lok næsta árs. Þá mun tónlistarhús stjórnmálamannanna standa eitt á hafnarbakkanum og allt í kring auðar lóðir sem einkaaðilar bíða betri tíma með að nýta. Næsta hús við tónlistarhöllina verður Seðlabankinn og er full ástæða fyrir stjórnmálamenn til að hlægja svolítið að honum í þessu samhengi því hann verður eins og garðskúr í samanburðinum.
Samtök atvinnulífsins hvöttu á dögunum hið opinbera til dáða í „mannaflsfrekum framkvæmdum“. Árið 2000 voru sett lög um fæðingarorlof sem hafa það í för með sér að jafnan eru um 4.000 einstaklingar á 80% launum hjá ríkissjóði við að gæta eigin barna. Það er nóg komið af mannaflsfrekum opinberum framkvæmdum af þessu tagi. Þau eru hluti vandans.
Vefþjóðviljinn hefur alla tíð verið mjög andvígur þessum tveimur „framfaramálum“ sem hér eru sérstaklega nefnd. Það væri ólíkt hægara um vik hjá hinu opinbera nú þegar kreppir að ef stjórnmálamenn hefðu ekki látið óhóf af þessu tagi eftir sér. Mál ef þessu tagi kynntu undir íslensku eignabólunni og eiga sinn þátt í þeirri verðbólgu sem menn standa nú frammi fyrir. Hið opinbera brást algjörlega þegar þörf var á aðhaldi og sparsemi í góðærinu. Stjórnmálamennirnir gátu ekki setið á sér, í stað þess að halda áfram að lækka skatta við auknar tekjur hins opinbera í góðærinu fóru þeir á útgjaldafyllerí.
Skattalækkanir eru nefnilega öflugasta ráðið til að þvinga fram sparnað hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum. Það þarf að minnka fóðrið við skepnuna til að hún hætti að belgjast út. Þetta sjónarmið mætti Lýðheilsustofnun kynna fyrir fjárlaganefndarmönnum næst þegar forsvarsmenn hennar mæta á fund nefndarinnar til að óska eftir fleiri starfsmönnum og stærri skrifstofum.
Tekjuskattur einstaklinga er hærri en þegar staðgreiðsla skatta var tekinn upp fyrir tveimur áratugum. Þrátt fyrir að um hríð hafi miðað í rétta átt í þeim efnum og tekjuskattshlutfallið lækkað jafnt og þétt um nokkurra ára skeið var snúið af brautinni þegar lögfest lækkun hlutfallsins var dregin til baka fyrir tveimur árum. Sú skattahækkun var að undirlagi samtaka launafólks, fólksins sem greiðir skattana. Við hverju búast menn í íslenskum efnahagsmálum þegar samtök atvinnurekenda hvetja til aukinnar starfsemi ríkisins og samtök launafólks til skattahækkana á launamenn?
Útsvar sveitarfélaga hefur aldrei verið hærra og flest þeirra „fullnýta tekjustofna sína“ eins og það er kallað þegar þau leggja eins háa skatta á íbúa sína og lög leyfa. Tekjur þeirra af fasteignagjöldum hafa einnig aukist hratt í eignabólunni. Öllu er umsvifalaust eytt í ný verkefni og helst meiru til með skuldsetningu. Frá þessu eru ánægjulegar undantekningar líkt og Seltjarnarnes þar sem útsvar og fasteignagjöld hafa lækkað á undanförnum árum.
Tal einstakra ráðherra ríkisstjórnarinnar um lækkun og einföldun tolla og vörugjalda virðist hafa verið tómt gaspur því litlar efndir eru sjáanlegar. Þvert á móti hefur nefnd á vegum fjármálaráðherra nýlega lagt fram ýmsar flóknar tillögur um gjaldtöku af bílum og eldsneyti þar sem neyslustýring og mismunun eru rauði þráðurinn.
Virðisaukaskattur er einn sá hæsti í veröldinni og hefur aldrei verið hærri. Að auki er nýlega búið að auka mismunun milli vörutegunda.
Það eru því næg verkefni til staðar í skattamálum, hvort sem menn munu í framtíðinni greiða þá í krónum, dölum, evrum eða frönkum.